Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.1.2010 | 14:21
Einu sinni enn...
Þetta er ekkert nýtt og hefur verið margsagt og endurtekið bæði fyrr og síðar.
Og breytir engu....
Margir virðast skilja það sem svo að þar sem reglugerðin nái ekki til algers hruns fjármálakerfis þá séum við Íslendingar lausir allra mála.
Ekkert er fjarri raunveruleikanum.
Spurningin snýst raunar um það hvað skeður ef tryggingasjóðurinn geti ekki leyst hlutverk sitt, t.d. ef allt fjármálakerfið sem fjármagnar sjóðinn, hrynur. Reglugerðin segir nefnilega ekkert um þetta atriði og þess vegna segja fræðimenn að um málið ríki lagaleg óvissa.
Hinsvegar hafa öll lönd í Evrópu, og gerðardómur sem íslendingar samþykktu í fyrstu en drógu síðar samþykki sitt til baka, sagt að í þessu tilviki þá verði heimaríki viðkomandi tryggingasjóðs að hlaupa undir bagga og lána tryggingasjóðnum. Þetta er voða einfalt. Ástæðan er einfaldlega sú að það er óhugsandi að innistæðueigandinn tapi því fé sem honum hefur verið lofað að sé tryggt og það stendur heimaríki viðkomandi tryggingasjóðs næst að tryggja að það eigi sér ekki stað.
Í okkar tilviki áttum við bara ekki fyrir því, þ.e. við gátum ekki lánað íslenska tryggingasjóðnum vegna þess að við áttum ekki fyrir því. Bretar og Hollendingar sáu aumur á okkur og lánuðu íslenska tryggingasjóðnum en gerðu það að skilyrði að það væri til staðar ríkisábyrgð og við samþykktum það þegar þessi lánveiting átti sér stað.
Og þessvegna sitjum við uppi með skuldina, og ríkisábyrgðina. Einfaldlega vegna þess að það er rétt að við gerum það. Burtséð frá því hvort við viljum það að hvort það sé þægilegt eða ekki.
Og allavega...þeir sem halda því fram að íslendingar eigi ekki að borga verða þá að geta bent á þann sem á að gera það. Og það þýðir ekkert að benda á erlenda innistæðueigandann, kalla hann "fjárfesti", og segja að hann eigi að bera tjón sitt sjálfur...það eru bara hryggleysingjar sem það gera.
Joly: Átti ekki að takast á við hrun heils bankakerfis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.1.2010 | 10:17
Himnarnir eru að falla !!!!
Stundum les maður fréttir sem maður skilur ekki fullkomlega og er þessvegna soldið hræddur við að tjá sig um þær. Maður gæti jú upplýst hvað maður er takmarkaður að flestu leiti.
Þetta er ein slík frétt.
Punkturinn í fréttinni er sem sagt sá að eignirnar séu ofmetnar vegna þess að þær eru í raun og veru í eigu útlendinga en ekki íslendinga og þessvegna sé eigur íslendinga ofmetnar.
Gott og vel.
Það sem er að veltast fyrir mér er þetta. Ef þessar eignir eru í eigu útlendinga vegna þess að þeir eigi þessi fyrirtæki, eru þá skuldir þessara fyrirtækja ekki líka í "eigu" útlendinga? Og vegna þess að um þrotabú er að ræða má ekki gera ráð fyrir að skuldirnar séu hærri en eignirnar? Og með því að færa þessar skuldir yfir í "eigu" útlendinga, einsog Mogginn gerir með eignirnar í fréttinni, erum við þá ekki að bæta stöðu þjóðarbúsins umtalsvert?
Við allavega hljótum að þurfa að meðhöndla eignirnar og skuldirnar með sama hætti.....
Annars er þetta ekkert nýtt og oft verið bent á það áður að staða þjóðarbúsins er "verri" sem nemur skuldum margra stórra "íslenskra" fyrirtækja. T.d. Actavis. Það myndi bæta stöðu þjóðarbúsins um þúsund milljarða að færa Actavis úr landi.
En hvort við yrðum betur stödd í raun og veru er annað mál.
Erlendar eignir ýktar? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.12.2009 | 11:28
Ein er sú þjóð...
...sem býr fjarri öðrum þjóðum.
Hún hefur um langa tíð lifað af landsins gæðum og telur sig lítið hafa að sækja til annarra þjóða þrátt fyrir að vera að mestu uppá alþjóðastofnanir komin með það að fæða og klæða landsmenn.
Þó fámenn sé telur þessi þjóð sig á meðal meiriháttar þjóða og að lífskjör sín séu á meðal þess sem best gerist.
Hún heldur dauðahaldi í sjálfstæði sitt og fullveldi og telur landsstjórninni, bæði í stóru og smáu, best komið í höndum eigin stjórnmálamanna. Þetta er bjargföst trú landsmanna þrátt fyrir að þessir sömu stjórnmálamenn hafi á undanförnum árum kallað stórkostlegar hamfarir yfir landsmenn.
Hún á í köldu stríði við helstu nágrannaþjóðir og vill í flestu fara fram sem eigin hagsmunir bjóða án tillits til skoðana nágrannaþjóða.
Þessi þjóð hefur í ljósi landfræðilegrar legu meiri áhrif á alþjóðavettvangi en mannfjöldi, herstyrkur eða efnahagsstyrkur gefur tilefni til.
Þessi þjóð er í alþjóðasamfélaginu álitin soldið skemmtilega skrítin og kallar jafnvel fram ofurlítið glott þegar á hana er minnst.
Og nei...þessi þjóð er ekki Íslendingar....þetta eru Norður-Kóreumenn.
22.12.2009 | 11:04
Síðasta orðið um Icesave
Ég ætla að eiga hérna síðasta orðið um Icesave.
Ég velkist ekkert í vafa um það að röksemdir mínar séu svo afgerandi og greindarlegar að það muni enginn reyna héðan í frá að hafa aðra skoðun en ég í þessu máli.
Eða þannig...
Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri að greiða Icesave skuldbindingar Landsbankans. Lögfræðilega varð skuldbindingin til þegar Alþingi íslendinga lögleiddi tilskipun EB um innistæðutryggingar. Tilskipunin gerir ráð fyrir því að einstaklingar sem eiga innistæður í banka á EES svæðinu getur gengið að því sem alveg vísu að 20.887.- evrur eru tryggðar af innistæðusjóði sem nýtur fulltyngis ríkissjóðs viðkomandi heimaríkis ef ekki er innistæða í tryggingasjóðnum.
Ef menn lesa eitthvað annað út úr lögunum er það einungis vísbending um það að tilskipunin hafi ekki verið lögleidd með réttum hætti. Sem einungis veldur því að að einstaklingur getur ekki unnið mál gegn íslenska ríkinu á grundvelli laganna...en hann getur unnið skaðabótamál á grundvelli þess að tilskipunin var ekki rétt innleidd....niðurstaðan er sú sama.´
Sumir hafa talið það eitthvað haldreipi að einstakir ráðamenn innan EB hafi lýst því yfir að tilskipunin um innistæðutryggingar taki ekki til algers hruns fjármálakerfis. Ég get ekki skilið það öðruvísi en að akkúrat í þeim tilvikum hljóti það að vera ríkissjóður viðkomandi heimaríkis sem yfirtaki skuldbindinguna. Það er jú á ábyrgð viðkomandi ríkis að stofna til tryggingarsjóðsins og þá með þeim hætti að hann dugi til síns brúks við þær aðstæður sem viðkomandi fjármálakerfi starfar.
Og hvernig sem fer....hver sá sem heldur því fram að íslenska ríkinu beri ekki að borga verður þá að svara því hver eigi að gera það? Vegna þess að einstaklingurinn sem á innistæðuna á að vera alveg öruggur með 20.887.- evrurnar sínar.
Þetta er það sem allar ríkisstjórnir á EES svæðinu hafa reynt að segja íslendingum alveg frá byrjun. Líka okkar nánustu vinaþjóðir, svo sem svíar og norðmenn.
Við erum meira að segja búin að fá dóm á bakið úr gerðardómi sem við samþykktum sjálf...en drógum síðan til baka samþykkt okkar korteri fyrir dóm.
Við erum einnig búin að samþykkja þetta sjálf óbeint, með því að samþykkja að fá lánað frá hollendingum og bretum fyrir þessu.
í ljósi alls þessa má sjá að það eru bara lýðskrumarar af verstu sort sem halda því fram að íslendingum beri ekki að borga Icesave.
Hvort að lánakjörin sem okkur bjóðast frá bretum og hollendingum séu eðlileg er síðan allt annað mál.
3.12.2009 | 14:13
Góðar jólagjafahugmyndir?
Nei...ég er ekki að biðja um hugmyndir að jólagjöfum...þetta reddast yfirleitt.
En ég ætla að rifja upp tvær sögur úr fjölskyldunni sem alltaf eru rifjaðar upp um hver jól.
Önnur er af frænda sem býr úti á landi. Hann hefur það fyrir sið að hlusta einfaldlega vel á vini og vandamenn á jólagjafalistanum, svona síðustu vikurnar fyrir jól, og kaupa svo einfaldlega eitthvað sem viðkomandi hefur lýst yfir áhuga á eða talið sig vanta. Yfirleitt óbrigðult.
Því var það að eiginkonan fékk þennan forláta reykskynjara í jólagjöf.
Og þegar hann furðaði sig á kuldalegu viðmóti eiginkonunnar í kjölfarið skyldi hann ekki neitt í neinu....hún hafði jú oft haft orð á því að henni fyndist vanta svona grip á heimilið.
Hin sagan er af öllu náskyldari ættingja sem fyrir mörgum árum var að stíga sín fyrstu sambúðarspor með kærustunni.
Þeim hafði áskotnast erfingi nokkrum vikum fyrir jól.
Og fullviss um það að ungt og blankt fólk gefi hvort öðru eitthvað sem vantar inná heimilið gaf hann unnustunni baðvikt, vandaðrar gerðar.
Sambandið enntist ekki lengi upp úr þessu og gott ef ekki baðviktin góða hafi ekki verið tilgreind sem ein af skilnaðarástæðunum.
Ég hef hinsvegar lært af reynslu þessara manna. Mín spúsa má gjarnan búast við tveimur gjöfum....pizzaofn og eyrnalokkar, hrærivél og ullarkápa, ljós á baðið og hálsmen.
Belti og axlabönd?...........
20.11.2009 | 15:09
Hallgrímur Helgason, rithöfundur og ættfræðingur
Ég var að lesa ,,frétt" á Vísi.is. Fréttin var sú að Hallgrímur Helgason hneykslaðist á Facebook síðu sinni yfir viðtali á Rúv við Styrmi Gunnarsson.
Á umfjölluninni mátti helst ráða að Hallgrími blöskraði náin tengsl Styrmis við þáttastjórnandann, Þóru Arnórsdóttur.
Og hver eru hin nánu tengsl? Jú....Styrmir á konu, sem á föður sem á bróður, sem á dóttur, sem starfar á Rúv og tók viðtalið við Styrmi.
Í kjölfarið reyndi ég að rifja upp hvað bræður tengdapabba hétu og hvaða börn þeir ættu. Það gekk ákaflega illa en ég get allavega huggað mig við það ef ég þarf á þessum upplýsingum að halda að það kann að vera hjálp að fá hjá Hallgrími.
Hann virðist vita allt maðurinn.........
17.11.2009 | 10:47
Eitt skil ég ekki...
...eða margt eftir atvikum.
Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að við Íslendingar sitjum uppi með Icesave...og eigum að sitja uppi með Icesave. Þeir sem halda öðru fram verða að svara því hverjir eigi að borga ef ekki Íslendingar? Lögin eru nefnilega alveg klár...innistæðueigendur eiga réttinn á að fá allt að 20.772 evrur af innistæðu sinni greiddar og eina spurningin er hverjir eiga að borga ef innistæðutryggingasjóðurinn fer á hausinn.
Innistæðutryggingasjóðurinn íslenski fór ekki á hausinn. Hann fékk lánað frá Bretum og Hollendingum, með vitund og vilja Íslendinga, og málið snýst núna um bakábyrgð íslenska ríkisins á því að innistæðutryggingasjóðurinn greiði þá peninga til baka.
Nú virðist liggja fyrir að eignir Landsbankans dugi fyrir höfuðstólnum. Vextina af skuldinni neyðist hinsvegar ríkið til að greiða vegna þess að þrotabú Landsbankans hvorki getur (á ekki fyrir þeim) né má greiða þá (er ekki lögmæt krafa á þrotabúið).
Hitt skil ég ekki afhverju tryggingasjóðurinn greiði ekki vextina? Af hverju er almennt gert ráð fyrir því að ríkið greiða þá? Það er gert ráð fyrir því í lögum um innistæðutryggingar að sjóðurinn geti tekið lán ef eignir hans dugi ekki fyrir útgreiðslu. Það er því fullkomlega eðlilegt að hann greiði vexti af þeim lántökum.
Nú þarf bankakerfið íslenska að endurfjármagna tryggingasjóðinn og mér finnst það eðlilegt að lögum um tryggingasjóðinn verði núna breytt með þeim hætti að bankarnir greiði inn í sjóðinn nægilega mikið til þess að í honum verði nægilegt fé til þess að greiða vextina þegar að því kemur.
Icesave afgreitt út úr nefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2009 | 12:07
Snake Plissken
Ég skil ekki hvert vandamálið varðandi þetta fangelsi er. Ég get ekki betur séð en að Ísland sjálft sé að breytast í eytt risastórt fangelsi....skuldafangelsi.
Leyfið bara þessum mönnum (og örfáu konum) að ganga lausum.
Leyfið þeim að reyna að finna sér vinnu, kaupa sér í matinn, halda húsnæðinu yfir höfði sér, borga skattana, fæða og klæða krakkaskarann. Með öðrum orðum...reyna það sama og eiginlega allir venjulegir íslendingar.
Verri refsingu er vart hægt að hugsa sér.
Það er búið að breyta Íslandi í New York einsog hún kemur fyrir í myndinni ,,Escape from New York" og héðan kemst enginn nema Snake Plissken.
Það er soldið fyndið að núna er að koma í ljós að Zhirinovsky var ekki bullukollur heldur spámaður.
Buðu ísbrjót sem fangelsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.9.2009 | 20:23
Einhenti hagfræðingurinn
Það er sagt um Harry S. Truman, fv. Bandaríkjaforseta, að hann hafi einu sinni kallað upp ,,give me a one handed economist!". Ástæðan er sú að hagfræðingar komast aldrei að niðurstöðu....þeir segja alltaf ,,á hinn bóginn".
Stiglitz sagði í Silfri Egils í dag að Íslendingar ættu að halda í krónuna. Þetta kemur bara nokkrum dögum á eftir skýrslu OECD þar sem íslendingum er ráðlagt að ganga í EU og taka upp Evruna.
Stiglitz sagði einnig að gjaldeyrishöftin væru eðlileg og skynsamleg viðbrögð við krísunni hér á landi. Þetta var bara nokkrum mínútum á eftir að við höfðum heyrt Jón Daníelsson, hagfæðing og kennara við London School of Economics hæðast að gjaldeyrishöftunum í sama þætti hjá Agli.
Stiglitz varaði við viðskiptahalla á Íslandi í skýrslu sinni frá 2001. Í fyrra (fyrir hrun) var Arthur Laffer, hagfræðingur og höfundur Laffer-kúrfunnar hér á landi og mér er minnisstætt að hann sagði, annaðhvort í viðtali hjá Boga eða Agli, að viðskiptahalli væri ,,wonderful thing" og þýddi ekki annað en það að fólk og fyrirtæki hefðu trú á framtíðinni og væru að fjárfesta eins og engin væri morgundagurinn. Hann benti á að í Bandaríkjunum hefði verið viðskiptahalli í 200 ár.
Ég er viss um að margir hafi búist við að Stiglitz myndi gagnrýna framgöngu AGS á Íslandi harðlega. Svo er þó alls ekki. Stiglitz vill meira að segja meina að þeir hafi lært af reynslunni og fari hér fram að meiri gætni en áður. Þetta hlýtur að vera Ólafi Ísleifssyni, hagfræðing og kennara við HR, nokkur vonbrigði.
Hvernig eigum við mennskir menn svo að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir þegar túlkanir og skoðanir sérfræðinga á sömu atburðarás er með svo mismunandi hætti ???
Segir AGS standa sig betur hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.8.2009 | 10:41
Segir alla söguna?
Það kemur ekki á óvart að vísitala kaupmáttar launa hafi lækkað um 7,8% síðastliðna 12 mánuði. Það sem kemur á óvart er að vísitalan hafi ekki lækkað meira.
Það er ástæða fyrir því.
Vísitalan nær nefnilega eingöngu til heildarlauna á vinnumarkaði. M.ö.o, laun þeirra sem dottið hafa útaf vinnumarkaði, t.d. vegna atvinnumissis, mælist ekki í vísitölunni. Ætli vísitala kaupmáttar þeirra hafi ekki lækkað um nærri 50% að meðaltali ef við gerum ráð fyrir að þeir fái atvinnuleysisbætur og hafi haft ca. meðallaun fyrir atvinnumissi.
Annar hópur sem ekki mælist í vísitölunni eru ellilífeyrisþegar. Sumir af stærstu lífeyrissjóðum landsins hafa þurft að skerða lífeyrisgreiðslur um allt að 10% og lætur því nærri að kaupmáttarskerðing þessa hóps sé á bilinu 15 til 18%.
Þriðji hópurinn er svo þeir sem þurfa að reiða sig að meira eða minna leiti á bætur frá Tryggingastofnun. Ég þori ekki að spá fyrir um hver kaupmáttarrýrnun þeirra er.
Launavísitalan sýnir því ekki raunverulega kaupmáttarrýrnun landsmanna allra, aðeins þeirra sem svo heppnir eru að hafa enn atvinnu og þar með laun.
Það er einnig áhugavert að rýna í tölur um þróun launavísitölunnar. Þessar tölur má sækja á heimasíðu Hagstofunnar. Að neðan er graf sem sýnir þróun launavísitölu á almennum markaði annarsvegar og hjá hinu opinbera hinsvegar frá 2005 til 1. ársfjórðungs 2009.
Á myndinni sést að frá byrjun árs 2005 allt til áramótanna 2005/6 breytast laun með svipuðum hætti á almennum vinnumarkaði og hjá hinum opinbera. Þá skýst almenni markaðurinn fram úr. Þetta breytist snarlega á 4. ársfjórðungi 2008, í hruninu. Laun á opinbera markaðnum halda áfram að hækka með svipuðum hætti einsog árin á undan en laun á almenna markaðnum fara að standa í stað eða lækka. Yfir allt tímabilið hafa laun á opinbera markaðnum hækkað meira en laun á almenna markaðnum.
Ég vek athygli á að þetta þýðir ekki að meðallaun hjá hinu opinbera séu hærri en á almenna markaðnum. Bara að bilið þarna á milli hefur minnkað.
Það verður áhugavert að skoða hvort þessi þróun haldi áfram. Tölur fyrir annan ársfjórðung 2009 verða birtar núna í haust.
Kaupmáttur launa hefur lækkað um 7,8% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Magnús Birgisson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ef 5,55% vextirnir eru of háir afhverju endurfjármagnar þessi flotti lántakandi, Ísland, ekki einfaldlega lánin annarsstaðar frá? Skyldi það ekki vera staðreynd að þessir vextir, 5,55%, eru einfaldlega bestu vextirnir á einu lánunum sem okkur stóð til boða?
Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er það skynsamlegasta leiðin núna að ljúka Icesave og snúa okkur að því að koma Íslandi aftur inní samfélag þjóðanna með það að markmiði að endurbyggja lánstraust. Í kjölfarið kann að skapast tækifæri til þess að endurfjármagna þessi lán á hagstæðari kjörum.