Færsluflokkur: Dægurmál
9.9.2008 | 14:44
Lax, lax, lax og aftur lax
Ég er ástríðufullur stangveiðimaður. Bara ekki heppinn veiðimaður....eða góður....fer eftir því hvernig á það er litið.
Og núna er ég að deyja úr spenningi....er að fara í Eystri Rangá á fimmtudaginn (11.9.2008).Þetta er svona byrjunin á sísoninu hjá mér. Þegar flestir aðrir eru að pakka saman er ég að setja saman. Ég er nefnilega ekki bara ástríðufullur veiðimaður, ég er líka blankur veiðimaður og er því öllu jafnan að kaupa mín leyfi á jaðartímanum þegar þau eru farin að lækka.
Stóra ferðin (og sú dýra) átti reyndar að vera í Andakílsá núna í byrjun ágúst. Við félagarnir, 4 saman, sóttum um hjá Stangó með öllum okkar A leyfum. Það kom svo í ljós að það sama gerðu allir aðrir félagsmenn í því ágæta félagi. Ég þurfti því að draga um daga í samkeppni við aðra í sömu stöðu og tapaði þeim hlutkesti. Það er svona með heppnina. Ég hef síðan haft blendna ánægju af því að lesa um metveiðisumarið 2008 í Andakílsá þar sem menn hafa verið að fá uppí 47 laxa á eina stöng í túrnum. Í sárabætur á ég einn dag þarna þann 26. september...gæti orðið kalt.
Það er nú samt ekki svo að eitthvað hafi ekki verið reynt í sumar. Í sumarfríinu, um miðjan júlí, fór ég að taka eftir því að Lax-á seldi lausa daga á Agn.is í Eystri-Rangá með 50% afslætti, daginn fyrir veiðidag. 60.000 þúsund í stað 120.000. Ekki ónýtt það. Ég tók eftir þvi eina helgina að miðvikudagurinn var laus og það hentaði mér vel. Ég beið því fram á þriðjudag með hnút í maganum eftir því að verðið lækkaði. Ekkert skeði og ég loks sprakk á limminu og hringdi. Jú..hann var einmitt að fara að lækka verðið. En hann bauð mér líka að kaupa daginn strax, án þess að taka séns á vefsölunni, á 70.000. Ég hrósaði heppninni og sló til.
Daginn eftir vorum við veiðifélagarnir mættir uppúr kl. 6 um morguninn í veiðihúsið. Spenningurinn sko. Áttum að byrja að veiða kl. 7. Þarna voru staddir 2 strákar og ég tók þá tali. Jú....þeir höfðu keypt leyfið sitt a vefsölunni daginn áður á 40.000. Ég gapti. En svona er þetta...sumir eru heppnari en aðrir.
Við áttum að gefa okkur fram við veiðivörðinn sem myndi gefa okkur leiðbeiningar um á hvaða svæðum okkur væri heimilt að veiða. Það kom auðvitað í ljós að eftir svæðadrátt daginn áður voru bara sístu svæðin eftir. Við máttum þó skjótast á svæði 1 en öllujafna halda okkur á svæði 0 sem árið áður tilheyrði Hólsánni og kostaði 1/3 af því sem við vorum að borga fyrir. Ansans óheppni.
Svo auðvitað kom í ljós að eftir rigningar daginn áður var áin kolbrún á lit og nánast óveiðandi allan morguninn. Ég varð þó aðeins var með því að láta spún skrolla eftir botninum. Ekkert hélt þó. Eftir hlé tókst okkur að nauða út að fá að fara á svæði 5. þar var ekkert um að vera svo við ákváðum að fara aftur á svæði 0 en þar, undir kvöld, tókst veiðifélaganum að setja í einn og landa á rauða Frances. Hann er sko heppnari en ég...þegar kemur að veiði.
Eina ferð fór ég svo í Þverá í Fljótshlíð í byrjun ágúst. Hálfur dagur. Heppnin ekki með í för þann daginn.
Já...svo fór ég hálfan dag í Elliðárnar um miðjan ágúst. Fékk einn á Sunray Shadow við Hundasteina og tryllti nokkra til viðvótar. Heppinn þar. Daginn bar reyndar upp á sama dag og Spánverjuleikurinn í handboltanum (Ólympuleikarnir muniði), svo ég hætti snemma til að horfa. Óheppinn þar.
Skemmtilegasta ferðin hingað til var í Veiðivötn. Annað holl eftir opnun. Fékk einhverja 15 fiska, þ.á.m. 6 pundara, 4,5p og 4 pund. Restin 1 til 3 pund. Reyndar alla á beitu þó flugan hafi verið mikið reynd. Heppnin ?
Ég er að gleyma. Hálfur dagur á silungasvæðinu í Ásgarði í Soginu. Toppurinn í veiðimennsku...bleikja á flugu . Fékk einn sjóbirting á spún .
Og túr í Jónskvísl og Sýrlæk um 20. ágúst. Ansans óheppni...enginn fiskur.
Úbbs....fjölskylduferðin í Efri-Haukadalsá í lok júlí...ég fékk ekkert en börnin fengu sitthvora bleikjuna í ósnum.
Og þá er komið að því sem eftir er. Eystri á fimmtudaginn. Ætlaði að undirbúa mig með því að kaupa nýjan skotenda á tvíhenduna, ca. 5000 kall. Gekk út 60.000 kallinum fátækari með nýja tvíhendu, hjól, undirlínu, running línu og skotenda plús 3 tauma og nokkrar flugur. Veðurspáin er ágæt...ef það styttir upp á morgun gæti áin verið búin að hreinsa sig á fimmtudaginn. Eigum svæði 1 fyrir hádegi og 9 eftir hádegi. Þekki bæði svæðin vel og aldrei að vita nema ég hafi heppnina með mér í þetta skipti.
Svo er það Laxá í Dölum um 19. sept. Þetta er næstsíðasta hollið í ánni og hefur veitt þarna í 20 ár. Ég hef tvisvar áður farið með en aðeins fengið einn fisk. Sá var húkkaðir í bakið af stórri svartri Frances keilutúpu í Kristnipolli. Sumir myndu kannski kalla það heppni en ég kalla það óheppni...ekki skemmtilegur veiðiskapur þó óvart hafi verið.
Þá er það Andakílsá 26. september, 1 dagur og að lokum Eystri aftur 6. október.
Þetta er nú allt og sumt þetta sumarið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Magnús Birgisson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar