Breytingar í heilbrigðisþjónustu

Enn einu sinni hafa verið boðaðar breytingar í heilbrigðisþjónustunni. Stofnunum breytt, þjónusta flutt af einum stað á annan, fólki sagt upp.

Og enn einu sinni hafa þeir sem telja hagsmuni sína best borgið með óbreyttu ástandi staðið upp og mótmælt harkalega. Rökin eru þau nákvæmlega sömu og alltaf áður. Þjónusta mun skerðast, sparnaðurinn verður enginn og kostnaður mun jafnvel aukast, öryggi sjúklinga er stefnt í hættu.

Og enn einu sinni er gagnrýnin á þann sem fyrir breytingunum stendur, þ.e. heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytið, nákvæmlega sú sama og alltaf áður. Skortur á samráði, faglegra sjónarmiða er ekki gætt, breytingarnar eru illa undirbúnar og flausturslega unnar, annarleg pólitísk sjónarmið liggja að baki, verið er að færa heilbrigðiskerfið útum bakdyrnar í hendurnar á einkaaðilum.

Þetta er allt orðið svo fyrirsjáanlegt að það er mér eiginlega óskiljanlegt að innan heilbrigðisráðuneytisins skuli ekki vera til  sérstök viðbragðsáætlun um hvernig að þessum málum er staðið og hvernig á að mæta gagnrýni. Svona einsog leikrit sem er sett upp á heilbrigðisfjalirnar á tveggja ára fresti.

Nú vill svo til að ég hef smá reynslu úr þessum geira. Eitt fyrsta starf mitt sem viðskiptafræðingur var sem sérfræðingur á launadeild Borgarspítalans. Eftir nokkra mánaða starf þar var tilkynnt um sameiningu við Landakot og til varð Sjúkrahús Reykjavíkur. Það kom í minn hlut að sameina launadeildirnar og launavinnsluna. Að því loknu var mér boðið deildarstjórastarfið á sameinaðri deild og gegndi ég því í 3 ár. Þá sagði ég upp og hvarf til einkageirans en áður hafði verið tilkynnt um sameiningu stóru spítalanna í Reykjavík, þ.e. SHR og Landsspítalans. Ég rétti náði að hrista hramminn á Magnúsi Péturssyni sem var ráðinn forstjóri fyrir sameinaðan spítala áður en uppsagnarfrestur minn rann út.

Í einkageiranum lærist manni fljótlega að breytingar eru eini konstantinn. Á þeim árum sem liðin eru síðan hef ég gengið í gegnum sameiningar, fjölmargar breytingar á skipuriti, breytingar á starfi, launakjörum, staðsetningu, vinnuaðstöðu og yfirmönnum. Móðurfélög hafa orðið systurfélög, eigendur koma og fara og koma aftur. Uppgangur, niðurskurður og núna síðast....uppsögn.

Og aldrei dettur manni í hug að það sé einhver sérstök ástæða til þess að mótmæla. Þetta er bara gangur lífsins og þeir sem stjórna og/eða eiga viðkomandi fyrirtæki verða að hafa það svigrúm sem þarf til að gera þær breytingar sem þeir telja nauðsynlegar til þess að ná sínum markmiðum. Þeirra eru jú ábyrgðin.

En aftur að heilbrigðiskerfinu. Bjarni Harðar gerir þessar breytingar að umtalsefni í nýlegum pistli. Hann er á móti þeim breytingum sem nú eru fyrirhugaðar og nefnir sem rök að kostnaður hafi orðið meiri á sameinuðum LSH en á fyrirrennurum hans. Hann hinsvegar nefnir ekki einu orði að kostnaður hækkaði hægar á sameinuðum spítala heldur en hann gerði áður. Auk þess er á bakvið þennan kostnað miklu fleiri læknisverk, fleiri aðgerðir, fleiri legudagar, fleiri fædd börn osfrv. en var áður. M.ö.o, sparnaðurinn var raunverulegur og við erum betur stödd með sameinaðan spítala en við hefðum verið með þrjá spítala. 

Annar aðili sem hefur tjáðsig um ,,hina heimsku hönd hagræðingarinnar" og ,,Excelmennina" er Grímur Atlason, fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík. Hann væntanlega beitti aldrei hagræðingarhendinni né var hann mikið eyða tíma í að velta fyrir sér tölum í Excel. Enda er staðan í Bolungarvík þannig nú að ekki aðeins er útsvarið í leyfilega hámarki, 13,28%, heldur er lagt sérstakt 10% álag ofaná útsvar Bolvíkinga. Þetta er það langhæsta á landinu.

Ég er þeirrar skoðunar að heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga verði til eftir sem áður þó gripið sé til hagræðingaraðgerða innan þess. Ég er ekki hræddur um að þjónusta skerðist eða að öryggi mínu sé stefnt í hættu. Ég óttast meira að ég, eða þjóðfélagið, hafi ekki efni á heilbrigðiskerfinu ef ekki sé stöðugt verið að leitast við að gera hlutina ódýrar og betur. 

Og ég er þeirrar skoðunar að það hafi allir gott af því að það sé hrist upp í hlutunum öðru hverju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Magnús Birgisson

Höfundur

Magnús Birgisson
Magnús Birgisson
Eiginmaður og 3 barna faðir. Viðskiptafræðingur að mennt en hugsuður að upplagi (að eigin mati).
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • snake-plissken
  • Þróun launavísitölu
  • Þróun launavísitölu
  • VIS04001200982441764
  • aygo vs. reva

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 522

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband