See you......wouldn't want to be you

Jasso.....þetta er soldil tíðindi.

Ef þetta stendur fyrir Hæstarétti þá eru þetta ekki aðeins stórtíðindi fyrir minnihlutavernd í hlutafélögum heldur einnig fyrir ábyrgð þeirra sem sitja í stjórn. Ég er hræddur um að það verði ekki lengur langar raðir fólks sem er tilbúíð til þess að taka að sér stjórnarsetu og vænta má að stjórnarlaunin verði að hækka talsvert.

Spurning hvort tryggingarfélög sjái sér ekki leik á borði og fari að bjóða uppá sérstakar ,,stjórnarsetutryggingar".

Nú eða hvort feminstahreyfingin snúi við blaðinu og fari að krefjast þess að færri konur verði settar á höggstokkinn með setu í stjórnum.

Ábyrgðin er líklega solidarísk, þ.e. allir fyrir alla og allir fyrir einn. Ef þetta stendur er ljóst að þessir einstaklingar sem sitja í stjórn eru gjaldþrota. Það þarf ekki nema lífeyrissjóðina sem voru á meðal stærstu hluthafa til þess, þe. Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Gildi

Ekki vildi ég vera þau......


mbl.is Gætu þurft að greiða út 35 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlætismál

Í fréttum RÚV núna í hádeginu var fjallað um dvalargjöld á Grund. Sagan er sú að dvalargjöld aldraðs sjómanns sem þar dvelur voru tvöfaldaðar núna um áramótin í kjölfar reglugerðarbreytingar félagsmálaráðuneytisins. Gjöldin fóru úr ca. 100 þúsundum í um 200 þúsund.

Þannig er að sjómaðurinn sýndi ráðdeild og lagði fyrir alla sína ævi. Fyrir vikið á hann um 10 milljónir á bankabók og fær af þeirri eign fjármagnstekjur.  Nú er það þannig að dvalargjöld á hjúkrunarheimilum fara eftir tekjum. Áður var horft til lífeyrisgreiðslna en reglugerðarbreytingin bætti fjármagnstekjum við.

Í fréttinni var rætt við félagsmálaráðherra sem taldi það einfalt réttlætismál að horft væri til allra tekna dvalarmanna og að þeir sem hefðu háar fjármagnstekjur væru ekki undanskyldir þessari greiðsluskyldu.

Mér er það hinsvegar óskiljanlegt hvaða réttlæti felst í því að horfa til tekna yfirleitt. Þjónustan er sú sama fyrir alla en afhverju sumir greiða meira en aðrir lítur út í mínum augum sem skattur, ekki dvalargjöld.

En gott og vel. Á þessu er einföld lausn. Viðkomandi sjómaður ætti að greiða sparnaðinn sinn til sinna afkomenda sem fyrirframgreiddan arð. Enda er það ólíklegt að sá sem á annað borð er kominn á dvalarheimili þurfi mikið á digrum sjóðum að halda. Varla fer maður í stórar utanlandsferðir eða kaupir sér dýrar bifreiðar. Viðkomandi getur haldið eftir nægilega miklu til þess að samanlagðar lífeyrisgreiðslur og fjármagnstekjur séu undir frítekjumarki því sem félagsmálaráðuneytið miðar við og þannig átt smá sjóð til að mæta óvæntum útgjöldum t.d. tannlæknakostnaði.

Þegar upp er staðið myndi þetta líklega spara bæði honum og afkomendunum stórfé í formi dvalargjalda og fjármagnstekjuskatts.

En mér finnst það reyndar fáranlegt að reglurnar okkar séu með þeim hætti að það sé hagkvæmt fyrir aldrað fólk að afsala sér eignum sínum sem það hefur með erfiði alla ævi tekist að nurla saman.


Breytingar í heilbrigðisþjónustu

Enn einu sinni hafa verið boðaðar breytingar í heilbrigðisþjónustunni. Stofnunum breytt, þjónusta flutt af einum stað á annan, fólki sagt upp.

Og enn einu sinni hafa þeir sem telja hagsmuni sína best borgið með óbreyttu ástandi staðið upp og mótmælt harkalega. Rökin eru þau nákvæmlega sömu og alltaf áður. Þjónusta mun skerðast, sparnaðurinn verður enginn og kostnaður mun jafnvel aukast, öryggi sjúklinga er stefnt í hættu.

Og enn einu sinni er gagnrýnin á þann sem fyrir breytingunum stendur, þ.e. heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytið, nákvæmlega sú sama og alltaf áður. Skortur á samráði, faglegra sjónarmiða er ekki gætt, breytingarnar eru illa undirbúnar og flausturslega unnar, annarleg pólitísk sjónarmið liggja að baki, verið er að færa heilbrigðiskerfið útum bakdyrnar í hendurnar á einkaaðilum.

Þetta er allt orðið svo fyrirsjáanlegt að það er mér eiginlega óskiljanlegt að innan heilbrigðisráðuneytisins skuli ekki vera til  sérstök viðbragðsáætlun um hvernig að þessum málum er staðið og hvernig á að mæta gagnrýni. Svona einsog leikrit sem er sett upp á heilbrigðisfjalirnar á tveggja ára fresti.

Nú vill svo til að ég hef smá reynslu úr þessum geira. Eitt fyrsta starf mitt sem viðskiptafræðingur var sem sérfræðingur á launadeild Borgarspítalans. Eftir nokkra mánaða starf þar var tilkynnt um sameiningu við Landakot og til varð Sjúkrahús Reykjavíkur. Það kom í minn hlut að sameina launadeildirnar og launavinnsluna. Að því loknu var mér boðið deildarstjórastarfið á sameinaðri deild og gegndi ég því í 3 ár. Þá sagði ég upp og hvarf til einkageirans en áður hafði verið tilkynnt um sameiningu stóru spítalanna í Reykjavík, þ.e. SHR og Landsspítalans. Ég rétti náði að hrista hramminn á Magnúsi Péturssyni sem var ráðinn forstjóri fyrir sameinaðan spítala áður en uppsagnarfrestur minn rann út.

Í einkageiranum lærist manni fljótlega að breytingar eru eini konstantinn. Á þeim árum sem liðin eru síðan hef ég gengið í gegnum sameiningar, fjölmargar breytingar á skipuriti, breytingar á starfi, launakjörum, staðsetningu, vinnuaðstöðu og yfirmönnum. Móðurfélög hafa orðið systurfélög, eigendur koma og fara og koma aftur. Uppgangur, niðurskurður og núna síðast....uppsögn.

Og aldrei dettur manni í hug að það sé einhver sérstök ástæða til þess að mótmæla. Þetta er bara gangur lífsins og þeir sem stjórna og/eða eiga viðkomandi fyrirtæki verða að hafa það svigrúm sem þarf til að gera þær breytingar sem þeir telja nauðsynlegar til þess að ná sínum markmiðum. Þeirra eru jú ábyrgðin.

En aftur að heilbrigðiskerfinu. Bjarni Harðar gerir þessar breytingar að umtalsefni í nýlegum pistli. Hann er á móti þeim breytingum sem nú eru fyrirhugaðar og nefnir sem rök að kostnaður hafi orðið meiri á sameinuðum LSH en á fyrirrennurum hans. Hann hinsvegar nefnir ekki einu orði að kostnaður hækkaði hægar á sameinuðum spítala heldur en hann gerði áður. Auk þess er á bakvið þennan kostnað miklu fleiri læknisverk, fleiri aðgerðir, fleiri legudagar, fleiri fædd börn osfrv. en var áður. M.ö.o, sparnaðurinn var raunverulegur og við erum betur stödd með sameinaðan spítala en við hefðum verið með þrjá spítala. 

Annar aðili sem hefur tjáðsig um ,,hina heimsku hönd hagræðingarinnar" og ,,Excelmennina" er Grímur Atlason, fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík. Hann væntanlega beitti aldrei hagræðingarhendinni né var hann mikið eyða tíma í að velta fyrir sér tölum í Excel. Enda er staðan í Bolungarvík þannig nú að ekki aðeins er útsvarið í leyfilega hámarki, 13,28%, heldur er lagt sérstakt 10% álag ofaná útsvar Bolvíkinga. Þetta er það langhæsta á landinu.

Ég er þeirrar skoðunar að heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga verði til eftir sem áður þó gripið sé til hagræðingaraðgerða innan þess. Ég er ekki hræddur um að þjónusta skerðist eða að öryggi mínu sé stefnt í hættu. Ég óttast meira að ég, eða þjóðfélagið, hafi ekki efni á heilbrigðiskerfinu ef ekki sé stöðugt verið að leitast við að gera hlutina ódýrar og betur. 

Og ég er þeirrar skoðunar að það hafi allir gott af því að það sé hrist upp í hlutunum öðru hverju.


Bensínbíll vs. rafmagnsbíll

Ég tel mig hafa mjög skynsamlega afstöðu til bifreiða. Notagildið ræður við bílakaup. Ég reyni að kaupa bíla sem henta því hlutverki sem þeim er ætlað. Verð og rekstrarkostnaður skiptir miklu máli og ég kaupi bílana 1-2 ára gamla og á þá í langan tíma.

Við eigum tvo bíla. Jeppa, auðvitað, dísil bíl, árgerð 2005 sem eyðir ca. 11 á hundraðið. Hann á mjög ljúfa daga og er ekinn ca. 8000 km. á ári, mest á  sumrin.

Hinn bíllinn er Toyota Aygo. Sparibaukur sem eyðir ca. 5,5 lítrum á hundraðið af bensíni og borgin gefur okkur ókeypis í stæði. Hann er notaður í eiginlega allt innanbæjarsnatt og við ökum honum ca. 12.000 km. ári.

Ég fylgist nokkuð spenntur með þróuninni á rafmagnsbílum. Mér finnst það liggja beint við að þegar Aygonum verður skipt út, eftir kannski 3-5 ár, þá muni ég skoða það að kaupa rafmagnsbíl í staðinn.

Ég rakst inná heimasíðu Perlukafarans, www.perlukafarinn.is. Þeir flytja inn og selja eina rafmagnsbílinn á Íslandi, Reva, sem eingöngu gengur fyrir rafmagni. Á heimasíðunni eru gefnar upp tölur um rafmagnseyðslu slíks bíls.

Mér datt í hug að bera saman eignarhaldskostnað Reva annarsvegar og Aygo hinsvegar. Forsendurnar eru hérna og eru fengnar af heimasíðum fyrirtækjanna:

aygo vs. revaÉg notaði reiknivélina hjá Avant til þess að finna afborganir til 7 ára og gerði ráð fyrir 100% fjármögnun. Ef maður tekur þessar tölur, gerir ráð fyrir 10 ára eignarhaldstíma og að bílarnir séu verðlausir að þeim tíma loknum, afvaxtar mv. 5% ávöxtunarkröfu þá munar 2,1 milljónum hvað það er hagstæðara að  eiga Aygoinn.

M.ö.o. þetta óskiljanlega verð á rafmagnsbílnum eyðir út öllum sparnaðinum af ódýrara eldsneyti og gott betur en það.

Mér til gamans þá sneri ég þessu við og spurði mig hvað bensínverðið þyrfti að fara í til þess að það væri ódýrara að eiga rafmagnsbílinn. Niðurstaðan var 537.- kr. á lítrinn. Það eru áratugir í það að bensínið farið í þær hæðir ef þá nokkurn tímann.

Það er greinilegt að ríkisvaldið þarf að koma hér inní með breytingar á tollum ef þetta dæmi á að ganga upp.

Nú kann einhver að segja að þetta sé ekki eingöngu hagkvæmnisspursmál. Rafmagnsbíllinn losar jú ekkert CO2 útí andrúmsloftið og er því umhverfisvænni. Á heimasíðu Kolviðar, www.kolvidur.is, er hægt að láta reikna út fyrir sig hvað það kostar að kolefnisjafna Aygoinn mv. gefinn akstur. Það kostar 2.113.- kr. á ári að kolefnisjafna bílinn eða ríflega 21.000 yfir ævitíma hans.

Og maður skilur eftir fallegan lund með um 140 trjám.

Það virðist vera talsvert í það að rafmagnsbíllinn verði valkostur hér á landi.


Er markaðurinn dauður ?

Fyrir stuttu skrifaði ég stuttan pistil um spurninguna hvort kapitalisminn sé dauður. Hann má sjá hér en niðurstaða mín er sú að svo sé ekki. Langt í frá reyndar.

Annað sem maður heyrir oft þessa dagana er það að markaðurinn sé dauður. ,,Óheft markaðshyggja" hafi leitt okkur í þessar ógöngur. Að markaðslausnir dugi greinilega ekki og leita verði annarra leiða. Að upphaf og endir alls ills á Íslandi sé ,,Markaðurinn".

Þetta er algert bull.

Og til þess að skilja afhverju er gott að skoða upprunann. Markaðurinn er nefnilega ekki eitthvað nýtt fyrirbæri. Hann byrjaði með Súmerum. Það eru ekki minna en 9000 ár síðan að þeir fóru að eiga viðskipti sín á milli og notuðu til þess peninga. Súmerar voru einnig fyrstir til þess að stunda landbúnað allt árið um kring. Umframframleiðsla af landúnaðarvörum leiddi til sérhæfingar þar sem þeir sem ekki stunduðu landbúnað framleiddu eitthvað annað og seldu og keyptu í staðinn það sem þá vanhagaði um. Þetta leiddi til borgarmyndunar utan um markaðstorgin og borgarmyndunin leiddi til mannfjöldaaukningar sem leiddi til þarfarinnar fyrir aukið skipulag sem leiddi til ritmáls.

Þessu má lýsa svona: Landbúnaður -> Markaður -> Peningur -> Borgarmyndun -> Ritmál -> Nútímaþjóðfélagsgerð.

M.ö.o, það að láta markaðinn leysa vandamálið um framleiðslu og dreifingu vöru og þjónustu er einn af hornsteinum nútímaþjóðfélags. Og á þessum 9000 árum sem liðin eru hefur maðurinn ekki fundið neitt betra skipulag til þess að skipta takmörkuðum gæðum en markaðinn.

En nú hefur orðið markaðsbrestur. Það þýðir ekki að markaðurinn sé ómögulegur frekar en að uppskerubrestur þýðir að landbúnaður sé ómögulegur. Í landbúnaði leituðu menn betri leiða, önnur kvæmi planta, kynbætur, rannsóknir á veðurfari osfrv. Og svo héldi menn bara áfram.

Nákvæmlega það sama þarf að eiga sér stað núna. Það þarf að læra af þeim mistökum sem gerð haga verið og finna lausnir.....og halda áfram.


Ekki króna frá Björk til Bjarkar

Ég skrifaði á síðasta ári heldur hæðnislega grein um Björk og skyndilegan áhuga hennar á uppbyggingu sprotafyrirtækja á Íslandi. Ég endaði þessa grein á áskorun til Bjarkar um að láta verkin tala og fjárfesta sjálf í einhverjum af þessum fyrirtækjum frekar en að vera með loðnar áskoranir um að ,,við" ættum að leggja áherslu á sprotafyrirtæki sem í mínum eyrum hljómar bara einsog hvatning um áhættufjárfestingar með skattfé almennings.

Ég var því soldið spenntur þegar ég las um fagfjárfestasjóðinn Björk sem Björk og Auður Capital eru að kynna þessa dagana. Í einfeldni minni hélt ég að Björk hefði þarna tekið á sig rögg og  látið fé af hendi rakna til atvinnuuppbyggingar á Íslandi.

Annað kom í ljós. Á heimasíðu sjóðsins kemur fram að til sjóðsins er stofnað með 100 milljóna króna framlagi frá Auði Capital. Annað virðist ekki hafa safnast enn sem komið er en jafnframt segir á síðunni að fagfjárfestum (t.d. lífeyrissjóðum) verður boðin aðkoma að sjóðnum.

Nýlega var í fréttum að Björk væri að leita sér að húsnæði í New York. Einherja kósý holu sem mætti kosta...tja.....svona ca. 550 milljónir.

M.ö.o......Björk hefur ss. meiri trú á fjárfestingum í lúxusíbúðum í New York en sprotafyrirtækjum á Íslandi.


Frábært tækifæri til þess að standa sig illa

Mér finnst einsýnt að það verði kosið á þessu ári. Og þó ég fagni því þá verð ég að viðurkenna að ég hálft í hvoru kvíði því líka.

Ég hef fylgt Sjálfstæðismönnum að málum hingað til. Mér finnst hinsvegar Sjálfstæðisflokkurinn vera í hálfgerðri afneitun þessar vikurnar. Eiginlegar allar stofnanir sem hafa brugðist á síðustu misserum hafa verið undir þeirra stjórn og ef Sjálfstæðisflokkurinn stígur ekki fram og gerir hreint fyrir sínum dyrum þá verður mjög erfitt að kjósa þá í ár.

Flokkurinn þarf núna að stíga fram og setja reglur um fjármál stjórnmálaflokka. Setja sér siðareglur um tengsl þingmanna við atvinnulífið, þ.m.t. eignatengsl. Upplýsa um hvernig þeir ætla að standa að ráðningum í valdamikil embætti. Svara kalli almennings um breytingar í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Koma fram með frumvörp sem tekur á hringamyndun og eignatengslum í atvinnulífinu. Og síðast en ekki síst taka til í sínum röðum og senda út á gaddinn þá einstaklinga sem þrálátur spillingarorðrómur hefur umlykið um langan tíma svo og þá sem hafa núna upplifað hugmyndafræðilegt gjaldþrot.

En ef ekki Sjálfstæðisflokkinn hvað þá? Dilemman sem ég á  í þar er í raun ekki hvaða flokk ég mundi kjósa heldur það að það er sama hvaða flokkar mynda næstu ríkisstjórn þá mun sú ríkisstjórn fá frábært tækifæri til þess að standa sig illa.

Það er sama á hvaða mælikvarða er horft þá eru efnahagshorfurnar slæmar. Ef næstu ríkisstjórn tekst ekki að laga stöðuna þá mun hún alltaf hafa einhverja bestu afsökun sem nokkurri ríkisstjórn hefur verið gefið....bankahrunið.

Næsta ríkisstjórn mun því geta lifað við mikið atvinnuleysi, háa verðbólgu, lækkandi kaupmátt, hallarekstur og skuldasöfnun ríkissjóðs svo og lágt gengi krónunnar og ávallt vísað til afleiðinga bankahrunsins.

Næsta ríkisstjórn getur stöðvað frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar, stóraukið umsvif ríkisins, hvort sem er í hefðbundnu hlutverki eða í atvinnulífinu, tekið upp hátekjuskatt og eignaskatt, hækkað erfðafjárskatt og virðisaukaskatt og drepið atvinnulífið í margvíslegan dróma og alltaf haft fyrir því frábæra afsökun. Bankahrunið og nauðsynlegar aðgerðir til þess að kljást við afleiðingar þess.

Þetta kalla ég að næsta ríkisstjórn mun hafa frábæra afsökun til þess að standa sig illa.

Ég er því eiginlega að komast á þá skoðun að líklega kjósa ég bara Sjálfstæðisflokkinn aftur. Hann hefur nefnilega enga afsökun. Hann hefur staðið sig illa og getur ekki ætlast til þess að hann fái bara að gera það áfram.

En fyrst verður flokkurinn að sýna einhvern lit og viðurkenna að það er verk að vinna í innanbúðarmálunum.


Kemur þetta á óvart ?

Síðast þegar var skipaður ,,sérstakur saksóknari" var það í Baugsmálinu. Sá sem þar gerðist fórnarlamb mátti þola 3 milljarða ófrægingarherferð og háð eiginlegra allra sem um það mál fjölluðu og martröðin stóð yfir árum saman.

Í þessu tilviki þarf viðkomandi hugsanlega að saksækja eigendur allra helstu fjölmiðla landsins. Þar undanskil ég ekki RÚV.

Þar að auki er strax með lögunum settar meiri skyldur á herðar þessum einstaklingi en öðrum sambærilegum starfsmönnum dómstóla en honum um leið ekki færð sömu réttindi. T.d. þarf viðkomandi ekki eingöngu að upplýsa um hlutabréfaeign sína í fjármálafyrirtækjum heldur einnig um skuldir sínar.

Hann þarf einnig að upplýsa um ,,starfsleg tengsl hans, maka og náinna skyldmenna við þá sem sinnt hafa stjórnunarstörfum í umræddum fjármálafyrirtækjum eða þeim stofnunum ríkisins sem rannsókn embættisins beinist að". 

Hann nýtur ekki 5 ára skipunar og hægt er að leggja embættið niður nær fyrirvaralaust. Þá fær viðkomandi 3 mánaða uppsagnarfrest en þingmenn t.d. sem detta útaf þingi fá 6 mánuði.

Í auglýsingunni um starfið er ekkert tekið fram um starfskjör eða hver mun fjalla um umsóknina eða á hvaða forsendum umsóknin mun verða metin. Það hefur ekki tekist svo björgulega í síðustu tilvikum þegar dómsmálaráðherra hefur nálægt starfsmannamálum komið.

Ef ég væri lögfræðingur myndi ég ekki sækja um. Það munu verða næg verkefni á næstu árum fyrir lögfræðinga í þessu landi og það væri bókstaflega óðs manns æði að kasta sjálfum sér og fjölskyldu sinni útí þessa djúpu laug undir þessum formerkjum.


mbl.is Enginn sótti um embætti sérstaks saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér virðist bara eitt vanta

Hér virðist það eitt vanta í frásögnina að ættfaðir Haarde ættarinnar á Íslandi fluttist frá Noregi á fyrri hluta síðustu aldar. Af meintri framtakssemi þeirrar ættar er komið máltækið ,,að haarda þetta" sem merkir að aðhafast ekkert og þá reddast þetta.

Af norðmönnum er hinsvegar það að segja að þar fannst olía á áttunda áratug síðustu aldar og safnaðist olíuauðurinn upp í miklum sjóði sem norðmenn hafa síðan nýtt til þess að ráðast á gjaldmiðla annarra þjóða í hagnaðarskyni, t.d. Íslendinga.


mbl.is Kviknakinn Geir og gullspilið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framleiða ál eða störf ?

Þó þetta séu áhugaverðar tölur þá vara ég við að taka þær of bókstaflega.

Það er hætt við að menn fari að hugsa sem svo að markmiðið með virkjun sé að framleiða störf. Svo er þó ekki. Markmiðið er að framleiða rafmagn. Rafmagnið á svo að selja þeim sem býður hæst verð á hverjum tíma. Hvort sem það er álframleiðsla, kísiliðja, netþjónabú eða annað.

Ef menn falla í þá gryfju að selja rafmagn til starfsemi sem býður lægra verð en býr til fleiri störf þá er farið að niðurgreiða störfin með rafmagnsverðinu. Þetta beinir framleiðsluþáttum þjóðfélagsin í óhagkvæmar áttir og gerir okkur fátækari þegar til lengri tíma litið.

Ég skrifaði færslu þar sem ég bý til absúrd dæmi og ég ber saman landnotkun til kartöfluræktar annarsvegar og álframleiðslu hinsvegar. Niðurstaðan bendir til þess að við ættum að moka upp alla kartöflugarða og breyta í uppistöðulón.

Allir ættu að sjá hendi sér að það er fáránlegt. Þeir sem hafa áhuga geta séð færsluna hér: http://magnusbir.blog.is/blog/magnusbir/entry/743196/


mbl.is Hátt í fimm þúsund störf í orkufrekum iðnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Magnús Birgisson

Höfundur

Magnús Birgisson
Magnús Birgisson
Eiginmaður og 3 barna faðir. Viðskiptafræðingur að mennt en hugsuður að upplagi (að eigin mati).
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • snake-plissken
  • Þróun launavísitölu
  • Þróun launavísitölu
  • VIS04001200982441764
  • aygo vs. reva

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband