Ekki breyta um stefnu

Vonandi hættir Whole Foods Market algerlega að selja íslenska vörur. Vörurnar sem þeir hafa verið að selja eru svo mikið styrktar af skattgreiðendum á Íslandi að við eigum bágt með að niðurgreiða matvæli ofaní kanann við núverandi aðstæður.

Auk þess eru þetta aðeins örfáir tugir milljóna á ári og skiptir engu máli.

Hitt skiptir miklu meira máli að láta ekki svona efnahagslegt ,,blackmail" verða viðurkennda aðferð í viðskiptum. Hvað ætlum við að gera þegar næsti aðili ætlar að ,,blacklista" íslenskar vörur vegna loðnuveiða (fæða hvalsins)?.....eða vegna botnvörpuveiða (fer illa með sjávarbotninn)?....eða vegna makrílveiða (við eigum þetta segja norðmenn og EB)?....eða vegna stangveiða á laxi(hann meiðir sig)?....osfrv....osfrv...

Allt þetta hefur verið reynt áður og við þurfum bara að standa í fæturnar og láta ekki undan svona óeðlilegum þrýstingi.

Sem ég held reynar að núverandi stjórnvöldum sé ekki treystandi til.


mbl.is Hætta að kynna íslenskar vörur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtiðin er ekki fögur

Ég er tiltölulega bjartsýnn að eðlisfari. Ég hef t.d. allt þar til uppá síðkastið haft trú á því að við munum ná okkur frekar fljótt upp úr þessum öldudal.

það er hinsvegar heldur farið að sortna fyrir augum mér.

Það virðist vera allar líkur á að við sitjum uppi með núverandi stjórnarflokka í ríkisstjórn með góðan meirihluta á næsta kjörtímabili.

Og við erum aðeins farin að fá smjörþefinn.

Jóhanna formælir fyrirtæki sem vogar sér að fylgja eftir kjarasamningum og ákvörðunum ASÍ um leið og þeir ákveða að greiða arð til eigenda sem er eiginlega ekkert nema hlægilega lítill.

Kolbrún reynir hvað hún getur að koma í veg fyrir hún þurfi að fylgja eftir hagsmunum Íslands á loftslagráðstefnu um leið og hún berst með oddi og egg gegn stóriðjuuppbyggingu.

Steingrímur vill draga til baka ákvörðun um hvalveiðar en brotnar undan þrýstingi og nær málamiðlunarsamkomulagi við sjálfan sig.

Katrín segir aðspurð í útvarpsviðtali að hún telji að uppbygging Íslands sé aðalmálið eftir kosningar en ekki aðild að Evrópusambandinu.

Enginn þeirra kemst þó með tærmar þar sem Ögmundur hefur hælana þegar kemur að molbúahættinum.

Það er búið að vera blautur draumur Íslendinga í mörg ár að markaðssetja hér heilbrigðisþjónustu fyrir útlendinga. Þegar svo menn koma með raunhæfar tillögur í þá veru og eru tilbúnir að fórna eigin tíma og fjármunum til þess þá er það eina sem heilbrigðisráðherra hefur málið að segja er að spyrja hvort þar með sé einhver bakábyrgð til staðar hjá íslenskum skattgreiðendum.

það er aldeilis áhuginn á atvinnuppbyggingu sem miðar að því að skapa 300 störf.

Og þetta skeður á sama tíma og formaður BSRB dregur í land með enn eina sparnaðarleið fyrrverandi heilbrigðisráðherra og stækkar enn meira þann niðurskurð sem þarf að eiga sér stað á næsta ári. 

Ég hef orðið áhyggjur af því að framfarahemlarnir í VG munu þegar upp er staðið kosta okkur meira en bankahrunið. Þau geta sökkt okkur í fen sem við munum aldrei ná okkur upp úr...og þá hefjast fólksflutningarnir fyrir alvöru.

Vanskilningurinn á því á hverju það er sem við lifum á í þessu landi er algjör. 


mbl.is Sterk skilaboð frá yngra fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegt misrétti...

...og alveg einsýnt að kæra. Það er tveimur eistum of mikið í bankaráði Seðlabankans mv. lög.

Og mikið erum við heppin að eiga svo eftirtektarsama borgara sem Silju. Borgara sem eru óþreytandi í baráttu sinni fyrir jafnrétti og láta ekkert tækifæri sér úr höndum renna við að vekja athygli á óréttlætinu.

Ein spurning þó....af hverju hefur engin kært tilnefningar í bankaráð Nýja Kaupþings ?....þar eru ekkert nema eggjastokkar !!!

Skildi það vera að óréttlæti er ok ef réttir aðilar njóta ?


mbl.is Bankaráð Seðlabanka ólöglega skipað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tryggvi Þór og niðurfærslan

Ég verð að viðurkenna að Tryggvi þór olli mér nokkrum vonbrigðum með að stökkva svona fram og taka undir niðurfærsluleið Framsóknarflokksins.

Ég hef það sterklega á tilfinningunni að hann hafi hent til hliðar hagfræðikápunni, klæðst þingmannskápunni, og verið sendur af stað með þessa vitleysu til þess að byggja brú yfir til Framsóknarflokksins fyrir komandi kosningar.

En varðandi niðurfærsluna....ég held að þetta sé ekki skynsamleg leið. Hún kemur þeim best sem hafa skuldsett sig mest og mismunar fólki eftir því hvar það fjármagnaði sig. Hún hjálpar þeim sem ekki þurfa aðstoðar við. Hún er einungis fjármögnuð af niðurskrift krafna frá gömlu bönkunum til þeirra nýju en horfir framhjá t.d. Íbúðarlánasjóð, lífeyrissjóðunum og fleirum.  Hún myndi afskrifa jafnt góð lán og slæm hjá bönkunum og valda viðvarandi taprekstri sem að lokum lendir á ríkinu. Osfrv....osfrv.....

Ég held að frekar en að ýta úr vör einum stórum björgunarbát sem allir eiga að klifra um borð í eða drukkna ella, þá sé betra að kasta út fjöldanum öllum af björgunarvestum og smærri gúmmíbátum sem fjöldskyldurnar geta síðan gripið til eftir efnum og aðstæðum hjá hverjum og einum.

Opnun séreignarsjóða, frumvarp um greiðsluaðlögun, frysting lána, lenging lána og hækkun vaxtabóta eru allt skref í rétta átt og eflaust má gera miklu meira.

En talandi um vaxtabætur.....  

Tryggvi þór er með hugmynd um þær líka sem mér finnst ennþá óskiljanlegri. Þeir sem hafa skuldsett sig mest greiða hæsta vexti og verðbætur. Þeir hafa einnig hæstu launin og greiða hæsta skatta. M.ö.o, þeir koma best út úr þessari kerfisbreytingu eru þeir sem hafa hæst launin og mesta skuldsetningu. Þeir sem beinlínis tapa á þessu eru þeir sem eru með hóflega skuldsetningu en lág laun, jafnvel engin. Þeir sem t.d. eru nú atvinnulausir og greiða litla sem enga skatta en fá vaxtabætur myndu missa vaxtabæturnar og fá ekkert í staðinn. Þú getur ekki nýtt þér skattaafslátt ef þú greiðir enga skatta.

Mér finnst þessar tillögur einhvernveginn klæðskerasaumaðar fyrir einstaklinga sem skuldsettu sig á bankastjóralaunum en þurfa að standa undir því á þingmannalaunum.

Var Tryggvi að gera skattaskýrsluna sína um helgina ?

 


mbl.is Tryggvi Þór: 20% af skuldum heimilanna verði felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég fíla fjármagnstekjuskattinn....

Nú er komið að því árlega....skattskýrslunni.

Ég nýt þeirra ,,forréttinda" að fá að gera þetta fyrir foreldra, tengdaforeldra, bræður og aldraða frænku. Það er varla til sú óréttláta regla í skattalögum sem ég hef ekki hnotið um á liðnum árum og hryllt mig yfir.

Núna fékk ég enn einn hrollinn....í þetta skipti yfir fjármagnstekjuskattinum.

Foreldrarnir og tengdaforeldrarnir eru komin á þann aldur að þau hafa minnkað við sig húsnæði og áttu nokkrar milljónir sem þau geymdu í hinum ýmsu sjóðum í samráði við færustu sérfræðinga (aðra en mig auðvitað). Þau töpuðu all nokkrum fjárhæðum við hrunið á peningamarkaðssjóðum, fyrirtækjabréfasjóðum, hlutabréfasjóðum og ég veit ekki hvað...alls er þetta eitthvað nálægt 10 milljónum fyrir þau öll.

Maður hefði haldið að tapið sem þau verða fyrir seinni part ársins myndi dragast frá hagnaðinum sem þau hafa fengið af innlausn á fyrri partinum. En það er öðru nær. Hérna eru leiðbeiningar sem skattmann birtir á  heimsíðu undir liðnum ,,Ýmsar spurningar um þær sérstöku aðstæður sem nú eru á Íslandi og tengjast skattframtalinu":

Hvernig á ég að færa tap á peningamarkaðssjóði á skattframtal?

Svar: Fyrir innlausn verðbréfa skal gera grein á eyðublaðinu RSK 3.15. Færa skal vaxtatekjur í þar til gerðan reit, en ef um tap er að ræða þá færist í þann reit 0 kr. Í þeim tilvikum sem sjóðir hafa verið gerðir upp og greiddir út er þó óþarfi að fylla út eyðublaðið, nægilegt er að gera grein fyrir því í athugasemdum skattframtals á fyrstu síðu, lið 1.4. Ef um fjármagnstekjur er að ræða færast þær í lið 3.3, en tap færist ekki á skattframtal.

Ég seldi hlutdeild í peningamarkaðssjóði um mitt ár 2008 og greiddi fjármagns­tekjuskatt af ávöxtuninni. Keypti fyrir hluta pen­inganna hlutdeild í öðrum sjóði sem nú hefur verið lagður niður og fékk greitt minna úr þeim sjóði en ég lagði í hann. Má ég nýta það tap á móti áður fenginni ávöxtun?

Svar: Þessu verður að svara neitandi. Gera skal upp hvern sjóð fyrir sig þannig að ekki er heimilt að jafna saman tekjum af einum sjóði á móti tapi af öðrum

Þá vitiði það. Þú greiðir fullan skatt af tekjunum en mátt bera tapið sjálfur.  Heildarfjármagns-tekjurnar geta verið neikvæðar á árinu en samt er greiddur skattur!! Svo er menn að undrast á því að það séu stofnuð einkahlutafélög utan um verðbréfaeignir !!

Nú sitjum við uppi með fjármálaráðherra sem finnst fjármagnstekjuskattur vera of lágur....go figure.


Við erum betur sett en bretar...

...allavega hvað varðar skuldir ríkisins.

 

Í fréttinni er sagt skuldir breska ríkisins séu 240.000 milljarðar (240.000.000.000.000).

Sambærilegt fyrir Ísland er 700 milljarðar (700.000.000.000 ) skv. upplýsingum frá viðskiptaráðherra í fréttum í vikunni.

Því er auðvelt að reikna að skuldir breska ríkisins eru 3,7 milljónir per íbúa en skuldir íslenska ríkisins 2,3 milljónir per íbúa.

Ergo...við erum betur sett en bretar.....hjúkk.


mbl.is Skuldir aukast mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óli spillingarbani...

..fer hamförum í herferð sinni gegn spillingaröflunum.

Það líður ekki svo mánuður að hann finni ekki enn eitt spillingarmálið sem má meta á einsog 100.000 kall.

Hann þarf ekki að vera í borgarstjórn nema í 500.000.000 (500 milljón) ár og þá er hann búinn að finna spillinga sem samantalin nemur sömu krónutölu einsog hann eyddi í niðurnýdda kofa á Laugaveginum í óþökk meirihluta borgarbúa.

Ég segi bara.....Go Ólafur !!! 


mbl.is Vill að Óskar Bergsson segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víðáttuvitlaust frumvarp um séreignarsparnað

Nú er komið fram á þingi víðáttuvitlaust frumvarp þessa efnis að heimilt sé að ganga í séreignarsparnað í lífeyrissjóðum til greiðslu skulda.
Frumvarpið sýnist mér vera sett fram af Sjálfstæðismönnum í einhverri barnalegri tilraun til þess að vera á ,,undan".
Frumvarpið virðist gera ráð fyrir því að sparnaðurinn sé tekinn út, að hluta eða öllu leiti, og notaður til þess að greiða upp skuldir en ekki til þess að standa undir mánaðarlegum greiðslum sem er það sem þarf til þess að hjálpa fólki í tímabundnum erfiðleikum sökum atvinnuleysis.
Auk þess eiga eigendur sparnaðarins að greiða vörsluaðilanum fyrir ómakið.
Hægt er að sjá frumvarpið hérna.
  
Þetta er auðvitað svo vitlaust að það nær engri átt. Að taka út sparnaðinn og greiða upp kannski brot af skuldum sínum breytir auðvitað litlu sem engu. Greiðslubyrðin sem eftir stendur er venjulega næg til þess að sökkva viðkomandi á nokkrum mánuðum.
En að geta notað sparnaðinn til þess að bæta upp t.d. atvinnuleysisbætur, með föstum mánaðarlegum greiðslum, væri eflaust nóg til þess að fleyta flestum áfram í 1 til 2 ár eða þangað til aftur er farið að rofa til í efnahagslífinu.
Og allir þeir sem núna misstu vinnuna og brugðu á það ráð að fara í skóla og ,,afsöluðu" sér þar með atvinnuleysisbótum ? Er það ekki skynsamlegt að þeir geti hjálpað sjálfum sér og nýtt td. skattkortið sitt með því að greiða sjálfum sér laun ?
Og að gera ráð fyrir að greitt sé sérstaklega fyrir þetta! Þeir sem spara í séreignarsjóð greiða fyrir þá þjónustu með afklípu af sjóðnum á hverju ári en greiða ekkert sérstakt gjald fyrir úttektir þegar kemur að útgreiðslu í formi lífeyrisgreiðslna. Af hverju ætti þetta að vera eitthvað öðruvísi ?
Ég er verulega vonsvikinn með Sjálfstæðismenn núna.

mbl.is 300 milljarðar í séreignasparnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnst ekki fleirum en mér það skrítið....

...að í viðræðum um myndun ríkisstjórnar hverrar hlutverk er fyrst og fremst að grípa til bráðaaðgerða og stjórna landinu í 2-3 mánuði fram að kosningum....þá snýst fréttaflutningurinn fyrst og fremst um það hver situr í hvaða stól ?

Ætli þetta sé raunsönn mynd af því um hvað er rætt á fundum flokkanna ? Ef svo þá rennur mér kalt vatn á milli skins og hörunds. Aðalmálið hlýtur að eiga að vera til hvaða aðgerða eigi að grípa á þessum stutta tíma og hvernig eigi að fjármagna þær aðgerðir. Er það ekki ?

Það er algert aukaatriði hver situr í hvaða stól og svo lítur út sem heil vika hafi einfaldlega tapast við þessar alvarlegu aðstæður og undirstrikar kannski að þeir sem nú eru fagnandi að taka við stjórnartaumunum skilja ekki alvarleika málsins.


Nú fékk ég kjánahroll

Í Kastljósi áðan var fulltrúi frá ,,Neyðarstjórn kvenna".

Hún lýsti þeirri skoðun sinni að því fjármagni sem til skiptanna er eigi að vera skipt ,,jafnt á milli kvennamálefna og karlamálefna". Spyrillinn greinilega áttaði sig ekki á hvað var verið að tala um og bað um nánari skýringar.

Jú..svaraði fulltrúinn...t.d. velferðarmálefni og álver.  Það mátti skilja hana sem svo að álver væru karlamálefni og við værum að eyða svo gríðarlegum peningum í að kynna stóriðjukosti hér á landi að það bitnaði á kvennamálefnum einsog velferðarmálum.

Það er eflaust eitt einhverjum tugum milljóna á ári hverju til þess að kynna fjárfestingarkosti hér á landi fyrir útlendingum. Hvort sem er álverum eða öðrum kostum. Við eyðum hundruðum milljarða á ári hverju í velferðarmálefni. Skv. þessum rökum ættum við að stórauka framlagið til kynningar eða skera niður framlög til velferðarmála niður í nánast ekki neitt. Svona til að gæta jafnvægis á milli ,,karlaáhugamála" og ,,kvennaáhugamála".

En kannski meinti hún að við eyðum svo miklum peningum í byggingu raforkuvera og álvera að það er ekkert eftir til að eyða í ,,kvennamálefnin". Því er til að svara að við eyðum ekki krónu í byggingu álvera. Það eru útlendingar sem gera það. Við eyðum heldur ekki krónu til byggingar raforkuvera. Það eru útlendingar sem lána okkur fyrir því og tekjurnar sem við höfum af álverinu greiða svo niður lánið fyrir raforkuverinu.  Það er ss. ekki tekin króna frá ,,kvennamálefnunum" til þess að greiða fyrir þessi ,,karlaáhugamál".

En hvernig þetta tvennt tengist, eða hvernig eitt útilokar annað skil ég engan vegin.

Eða þá að annað sé kvennamálefni og hitt karlamálefni ? Hver ákvað það ? Með kvaða rökum ?  

En það ætti hver meðalgreindur einstaklingur að skilja að okkur er nauðsynlegt að fá hingað erlenda fjárfestingu. Bæði í stóriðju og öðru. Það eykur tekjur þjóðarbúsins sem ríkið skattleggur síðan og stærstum hluta þeirra skatttekna sem þannig verður til er varið til velferðarmálefna. M.ö.o, annað vinnur með hinu en er ekki útilokandi.

En svo fór hún yfir í annað og útskýrði fyrir okkur sjónvarpsáhorfendum að konur komist ekki í toppstöður og hafa lægri laun en karlar vegna þess að þær séu ekki tilbúnar til þess að vinna 50 til 60 tíma vinnuviku. Því yrði að breyta þeim kröfum sem gerðar eru til æðstu stjórnenda í fyrirtækjum og stofnunum svo konur hefðu meiri áhuga á þessum störfum.

Hún vill ss. minnka kröfurnar. Við erum einmitt að uppgötva það þessar vikurnar að við höfum gert of miklar kröfur til þessa fólks. Akkúrat.

Hitt virðist alveg fara fram hjá henni að e.t.v. er launamunurinn þá fullkomlega eðlilegur og engin ástæða til þess að grípa til aðgerða til þess að neyða konur í störf sem þær hafa bara engann áhuga á.

Eða vill hún kannski bara launin? Ég skil það vel. Ég væri alveg til í hærri laun. Eða bara laun yfirleitt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Magnús Birgisson

Höfundur

Magnús Birgisson
Magnús Birgisson
Eiginmaður og 3 barna faðir. Viðskiptafræðingur að mennt en hugsuður að upplagi (að eigin mati).
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • snake-plissken
  • Þróun launavísitölu
  • Þróun launavísitölu
  • VIS04001200982441764
  • aygo vs. reva

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband