Til varnar náttúruauðlindum Íslands

Við íslendingar vitum að við erum rík af náttúruauðlindum. Fiskurinn, fallorkan, jarðhitinn, vatnið, moldin, staðsetning og ásýnd landsins eru náttúruauðlindir sem við trúum að erlendar ríkisstjórnir, fyrirtæki og alþjóðastofnanir ásælist og séu tilbúin til þess að beita hvaða meðulum sem er til þess að koma höndum yfir.

Það er mikið talað um að ,,verja náttúruauðlindir " íslendinga fyrir ,,ásælni útlendinga". Við megum ekki ganga í alþjóðasamtök (EES), gera alþjóðasamninga (Icesave), selja orkufyrirtæki (HS Orka), eða bara yfirleitt nokkuð það sem krefst þess að við tölum ensku því þá erum við að ,,færa náttúruauðlindir okkar í hendur útlendinga".

Ég fór að hugsa um þetta þegar ég las skýrslu breskrar þingmannanefndar um íslensku bankakreppuna og áhrif hennar á Bretland. Skýrsluna má finna hér.

Þar má finna eftirfarandi: 

,,Iceland has a population of 319,756 people which places it in size of population somewhere between Coventry and Wakefield. This volcanic island is not especially abundant in natural resources and historically has ranked amongst the poorest countries in Western Europe. Its economy has traditionally depended heavily on the fishing industry."

Skyldi það vera að við séum ekki aðeins rík af náttúruauðlindum heldur einnig hæfni til sjálfsblekkingar líka?

Það er nefnilega staðreynd að þó hér séu náttúruauðlindir þá eru þær aðeins miklar í hlutfalli við fjöldann, þ.e. gamla góða höfðatölureglan gildir hérna líka og gerir okkur mest og best.

Fiskveiðiaflinn er aðeins brot af heimsaflanum, orkan er aðeins brotabrot af heildarorkuþörf heimsins(og ekki mjög ódýr heldur, kol eru ódýrasti orkugjafinn og mikið til af þeim). Það er enginn skortur á vatni í heiminum, því er aðeins misskipt á milli svæða og vatn á eyju í Atlantshafi kemur að engu gagni í Afríku. Við erum meira að segja eitt minnst heimsótta land í heiminum af ferðamönnum. Það er aðeins í hlutfalli við íbúafjölda sem við skorum eitthvað þar.

Og þá vaknar upp spurningin. Hversu mikið vilja útlendingar í alvörunni leggja á sig til þess að ,,koma höndum yfir" náttúruauðlindir íslendinga þegar þær eru í raun og veru afskaplega litlar? Maður skilur stríð til þess að komast yfir ríkar olíulindir, demanta- eða gullnámur. En á það sama við um fiskimiðin okkar? Bretar voru ekki tilbúnir til þess að fara í stríð til þess að hafa aðgang að fiskimiðunum. Þó við viljum gjarnan kalla árekstrana ,,þorskastríð" þá var ekki um alvöru stríð að ræða.

Ég held að náttúruauðlindir okkar séu fyrst og fremst uppspretta auðs í okkar eigin augum og fyrir okkur sjálf. Fyrir útlendinga er einfaldlega of lítið af náttúruauðlindum hér til þess að það taki því að leggja sig eitthvað fram um að komast yfir þær og feitari geltir að flá annars staðar.


Bloggið hans Bubba Morthens...

Hann Bubbi er með vikulegan þátt á Rás 2. Þátturinn kallast Færibandið og er á dagskrá á mánudagskvöldum.

Eflaust hinn ágætasti þáttur þó ég hafi aldrei heyrt nema glefsur úr honum.

Ég hef heyrt nokkra innganga að þættinum hjá honum Bubba. Þar gengur hann langt úr vegi sínum að hnýta í bloggara og bloggheima. Þar setur hann alla undir sama hatt og sparar ekki stóru orðin um þann arma hóp karla og kvenna sem blogga.

Mig og aðra samskonar asna....

Íronían í því að hann er auðvitað ekkert annað en bloggari sjálfur virðist fara alveg fram hjá honum. Sú staðreynd að hann bloggar í töluðu máli, á launum, í útvarpi allra starfsma...afsakið, ...landsmanna, breytir því ekki að hann er bara bloggari.

Hann meira að segja skreytir bloggið sitt með tónlist...alveg einsog  Jens Guð og fleiri.

Bloggið hans Bubba virkar líka soldið einsog Moggabloggið. Það má nefnilega hringja inn. Um daginn heyrði ég einhvern innhringjara lýsa því hvernig hann ætti 60 milljónir íslenskar á reikningi erlendis sem honum dytti ekki í hug að færa heim fyrr en gengið væri almennilega farið til andskotans. Hann lýsti því líka hversu yndislegt það væri að sitja í kvöldsólinni á trillunni, á frjálsum handfæraveiðum....og fá sér eina ,,sérstaka sígarettu" sem hann geymdi í brjóstvasanum fyrir sérstök tilefni.

Bubbi saup kveljur og henti viðmælandum snarlega útaf blogginu sínu.

Ég hinsvegar grenjaði af hlátri og lofaði sjálfum mér því að hlusta oftar á bloggið hans Bubba. 


Um kúlulán og gráglettni örlaganna...

Ég ætla að koma út úr skápnum í þessari bloggfærslu. Þannig er mál með vexti að á tímabili var ég áhugasamur skrásetjari á íslensku Wikipedia. Ekki það að ég sé alveg hættur þar en bloggið virðist svala tjáningarþörf minni í augnablikinu.

Einhverju sinni hvolfdist yfir mig þörf um að setja eitthvað þar inn um ,,Barnalánið" svokallaða. Ég ætla ekki að fjalla neitt um það hérna en áhugasamir geta skoðað færsluna hér. En til þess að fjalla um ,,Barnalánið" fannst mér rétt að setja inn skilgreiningu á hugtakinu ,,kúlulán". Sem ég og gerði en færsluna má finna hér.

Í allri umræðunni að undanförnu um kúlulán hefur skilgreining mín á  Wikipediu síðan dúkkað upp út um allt. Mér til mikillar ánægju að sjálfsögðu. Sjá t.d. hér og hér. Gott ég hafi ekki séð hana í einhverju dagblaði um daginn líka.

En gráglettni örlaganna, sem vísað er í í yfirskrift þessarar færslu, fellst í því að 2 frægustu kúlulán Íslandssögunnar eru tekin af vinstrimönnum og fyrrum Alþýðubandalagsmönnum. Barnalánið af Ragnari Arnalds og Icesave lánið af Steingrími J. Sigfússyni. Það má, með ákveðnum leikfimiæfingum þó, kalla Icesave lánið kúlulán.

Þeir eru því ókrýndir kúlulánakóngar Íslands. Þeir eiga það meira að segja sameiginlegt með kúlulánakóngum og drottningum bankanna að ætla sér ekki að greiða nema lítinn hluta lánanna til baka sjálfir en láta aðra um það að mestu.

En til þess að halda öllu til haga þá tel ég að Íslendingum sé best borgið um þessar mundir að tryggja Icesave lánasamninginn með ríkisábyrgð.

Mér líkar það ekki....en það er einsog svo margt í lífinu.....  


Hið besta mál....

Ég skil ekki hvað menn eru að blóta hinum meintu bröskurum...

Hérna hafa menn fylgst með ánægju hvernig gengið erlendis annarsvegar og Seðlabankagengið hefur verið að færast saman að undanförnu. Og jafnvel talið sem ein af forsendunum fyrir því að gjaldeyrishöftin verði afnumin.

Nú vita menn hvaðan eftirspurnin eftir íslenskum krónum erlendis kemur....og ætti ekki að koma neinum á óvart.  

Í staðinn ættu menn að hugleiða hvort gjaldeyrishöftin hafi ekki verið vitleysa alveg frá upphafi. Hefði ekki verið betra að frysta einfaldlega skuldbindingar einstaklinga og fyrirtækja í erlendri mynt í 1 ár, lækka innlenda vexti niður í 5% og leyfa genginu að hrapa ?

Allar hræddu jöklabréfakrónurnar hefðu ruðst úr landi á gengi sem væri nánast ekki neitt og við laus þann höfuðverk.

Útflutningsfyrirtækin hefðu grætt á tá og fingri í skamman tíma og allir heilvita menn hefðu komið með hvert einasta evrusent sem þeir koma höndum yfir til landsins og engin þörf á skilaskyldu. Gengið hefði síðan skotist upp í kjölfarið og við aldrei þurft að hafa áhyggjur af tvöföldu gengi eða braski með gjaldeyri.

Það má allavega velta þessu fyrir sér....


mbl.is Gjaldeyrisbraskarar græða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við reglubundið eftirlit....

Þetta finnst mér eiginlega of fyndin frétt til þess að blogga ekki um hana....

Það er semsagt staðreynd að það fer fram reglubundið eftirlit innan í ferðalöngum sem leið eiga um flugstöðina.

Öðru vísi mér áður brá... 


mbl.is Gleypti 38 pakkningar af kókaíni og reyndi að smygla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sér er nú hver samningurinn...

Jasso....það er bara svona.

Mikið væri gaman að vita hverjar samningskröfur Íslendinga voru þegar nefndin lagði í þessa vegferð.

Ég get nefnilega ekki betur séð en að niðurstaðan hefði getað verið svona ef kröfurnar hefðu engar verið og velmeinandi og víðsýnir Bretar hefðu einfaldlega rétt okkur samningsdrög til undirritunar. Vextirnir háir og skilyrðislaus bakábyrgð skattgreiðenda á allri upphæðinni.

Af hverju 5,5% vextir? Hverjir eru vextirnir af IMF láninu okkar í samanburði? Breska ríkið er kannski að fjármagna sig á 1-2% vöxtum um þessar mundir svo þeir eru að græða helling á því að lána íslendingum þessa peninga.

Hvenær fara vextirnir að reiknast? Mér finnst eðlilegt að þeir fari ekki að reiknast fyrr en að frystingunni er aflétt því fram að þeim tíma hafa þessar eignir sem standa á bakvið verið á forræði Breta sjálfra. Þeir hefðu einnig að einhverju leiti viðurkennt tjónið sem þeir ollu okkur með því. 

Hvernig var valið í samninganefndina? Mér sýnist Svavar og Indriði vera í forsvari fyrir henni. Þar er engin reynsla til staðar af alþjóðlegum samningum.

Og svo framvegis og framvegis.....

Og nú sem áður munu þeir sem að þessum samningum standa, þ.e. stjórnvöld, skálka í því skjólinu, að þetta sé verkefni sem þeir fengu í fangið af fyrri stjórnvöldum og útkoman sé því þeim að kenna. Þetta verður söngurinn í hvert skipti sem mistök eiga sér stað fram að næstu kosningum og hugsanlega lengur.

Á meðan pakka þeir landsmenn sem eiga þess kost ofan í koffortin og flytjast erlendis.


mbl.is Frystingu eigna aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú rann mér kalt vatn...

..á milli skins og hörunds.

Í atvinnuleysi, blankheitum og fallandi húsnæðisverði gat fólk allavega huggað sig við eitt....fasteignagjöldin yrðu lægri á næsta ári og vaxtabæturnar hærri.

En mér sýnist sem ríkið, sveitarfélögin og Fasteignamatið hafi tekið höndum saman um að slökkva á þeirri von.

Sveitarfélögin þurfa ekki að hækka prósentuna. Fasteignamatið kemur einfaldlega til hjálpar og breytir því hvernig fasteignamatið er reiknað...væntanlega til hækkunar. Og ríkisvaldið getur einnig sagt hjúkk.....vaxtabæturnar lækka líka á næsta ári hjá þeim sem eru komin yfir eignamörkin sem skerðingin fer að reiknast af. Hún er miðuð við fasteignamat húsnæðis.

Og ég get ekki betur lesið út úr fréttinni en að sú lækkun sem búast má við á húsnæðisverði frá því í maí 2009 og fram til desember muni ekki hafa nein áhrif á fasteignamatið !!

Er þessu fólki ekki sjálfrátt ?!?


mbl.is Fasteignamat sýni verðþróun betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðalausir ráðamenn ?

Skildu ráðamenn ekkert vera farnir að sjá hvað klukkan slær ?

Skildu þeir ekki vera farnir að kveikja á perunni með það að það er ekki bara eigið fé heimilanna sem núna er brenna upp heldur einnig draumar og væntingar um framtíðina ?

Frysting lána, greiðsludreifing, greiðslujöfnun og lenging eru bara önnur orð um meiri lán. Ný lán til þess að greiða inná gömul lán. Ný lán sem bera vexti og eru gengis- og verðtryggð. Lán sem þarf að greiða í framtíðinni af launum sem eru miklu lægri en þau voru eða jafnvel ekki til staðar.

Og afhverju skyldi fólk sem sér fram á það að eyða ævinni í að greiða af lánum sem eru hærri en eignir þess ekki hætta að borga? Lán sem sýna þess engin merki að greiðast niður....hafa aldrei gert og er ólíklegt að muni nokkrum sinnum gera það.

Afhverju ætti fólk sem er í þessari stöðu ekki hætta að borga núna, taka skellinn strax og sjá þá kannski fram á það að geta um frjáls höfuð strokið einhverntímann í framtíðinni. Hugsanlega mun fyrr en fólk sem streðast við að borga og borga og allt virðist gufa upp í höndunum á.

Ég get alveg séð það í hendi mér að þetta er betri framtíðarsýn en sú sem ráðamenn bjóða....meiri lán og þrældómur til  æviloka.

Hugsanlega erum við að horfa fram á það að unga fólkið í dag og þeir sem eru komnir að miðjum aldri er fyrsta kynslóðin á lýðveldistímanum sem ekki getur vænst þess að hafa það betur en foreldrar sínir. Og land sem ekki getur boðið þegnum sínum betra hlutskipti en þetta heldur ekki í þá.

Svo einfalt er það..........


mbl.is Flestir geta staðið í skilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnustefna VG

Ég hef áður tjáð mig um atvinnustefnu VG, sjá hér.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekkert að verða bjartsýnni. Ruglið sem viðgengst er alveg yfirgengilegt. Frambjóðendur flokksins tjá sig frjálslega um hvar tækifærin liggja og ég hef heyrt snilld einsog húsgagnaframleiðslu, framleiðsla lífrænna landbúnaðarafurða, gróðurhúsaframleiðsla, skipasmiðaiðnaður, skinnaiðnaður osfrv...

Einhver kallaði þetta ,,störf sem þarf að vinna í stígvélum". Ég held að það sé alveg rétt. Ég sé fyrir mér íslenska menningarbyltingu þar sem ungir menntamenn af höfuðborgarsvæðinu er fluttir nauðugir í sveitirnar til þess að vinna við þjóðlega undirstöðuatvinnuvegi sem hafa hlotið náð fyrir augum kommissaranna.

Allir hafa þessir atvinnuvegir það sameiginlegt að þeir geta ekki keppt í samkeppni við erlenda framleiðslu nema gengið sé hérna ca. 200 krónur á evru. Sem kannski útskýrir tregðu flokksins við að horfast í augu við gengishrunið og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Það er bara fínt í þeirra augum og ,,skapar alveg gríðarleg tækifæri". Á meðan getur almenningur lært að sætta sig við það að Ísland er og verður Kúba norðursins. Það sem öðrum þjóðum finnst sjálfsagt einsog utanlandsferðir, nýr bíll öðru hverju, svo ég tali ekki um flatskjái, tölvur eða annan óþarfa...þetta allt tilheyrir sögunni hér á Íslandi.

En tilefnið að þessum pistli var innslag sem ég heyrði rétt í þessu á rás 2. Þar var Steingrímur að tjá sig um stóriðju og á honum mátti skilja að hún væri bara vitleysa. Hvert starf í stóriðju væri okkur svo dýrt að við hefðum hreinlega ekki efni á henni.

Hvílíkt rugl.

Staðreyndin er að hvert starf í stóriðju er ókeypis. Akkúrat...ókeypis....kostar ekki krónu. Ástæðan er einfaldlega sú að það eru útlendingar sem fjármagna störf íslendinga í orkufrekum iðnaði. Stóriðjuverið sjálft fjármagna þeir með eigin fé og lántökum á eigin reikning. Orkuverið fjármagna þeir með lánveitingum til Landsvirkjunar. Og útlendingarnir eru tilbúnir til að lána til Landsvirkjunar vegna þess að það eru útlendingar sem eru tilbúnir til að kaupa orkuna þaðan með langtímasamningum.

Og því er uppbygging stóriðju fljótlegasta og ódýrasta leiðin til þess að koma hjólunum af stað aftur og sú eina sem kostar okkur ekkert.


Ég vildi að ég væri arðræningi

Ég var að horfa á Kiljuna áðan þar sem rætt var um Margréti Guðnadóttur, þann merka vísindamann. Gluggað var í gamla grein eftir hana þar sem hún lýsti yfir andstyggð sinni á ,,arðráni".

Ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf átt soldið erfitt með þetta hugtak. Ég held að ég verði eiginlega bara að segja að ég hef aldrei skilið það eða hvernig nokkur maður kemst í þá aðstöðu að arðræna annan. Allavega í svona nokkurn veginn frjálsu samfélagi.

Einsog ég sé þetta þá þarf tvo hópa til þess að það verði til verðmætasköpun í fyrirtæki. Annar hópurinn leggur til frítíma sinn og við köllum það vinnu. Hinn hópurinn leggur til sparifé sitt og við köllum það kapital eða eigið fé.

Þegar vara eða þjónusta hefur verið framleidd og ýmiss tilfallandi kostnaður við það hefur verið greiddur stendur eftir einhver hagnaður í fyrirtækinu. Þessum hagnaði er síðan skipt á milli þessara tveggja hópa. Annar hópurinn fær lungann (svona yfirleitt) af hagnaðinum í formi launa og hinn hópurinn fær restina. Fyrir þá rest greiða sparifjáreigendurnir afborganir og vexti af lánum fyrirtækisins, endurnýja véla og húsakost, greiða skatta af rekstri fyrirtækisins osfrv. Ef eitthvað er eftir þá, og aðeins þá, greiða sparifjáreigendurnir sér vexti af sparifénu.

Hver arðrænir hvern í þessu dæmi ? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Magnús Birgisson

Höfundur

Magnús Birgisson
Magnús Birgisson
Eiginmaður og 3 barna faðir. Viðskiptafræðingur að mennt en hugsuður að upplagi (að eigin mati).
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • snake-plissken
  • Þróun launavísitölu
  • Þróun launavísitölu
  • VIS04001200982441764
  • aygo vs. reva

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband