Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
29.9.2008 | 13:47
Peningamarkaðssjóðirnir að taka skell ?
Eitt var að vekja athygli mína.
Rekstrarfélög verðbréfasjóða, allavega Glitnis og Kaupþings, eru ekki búin að birta gengi fyrir peningamarkaðssjóði sína í dag, þ.e. mánudaginn 29.
Venjulega er það gert fyrir opnun markaða að reikna gengi þessara sjóða enda á fólk að geta keypt og selt í þessum sjóðum samdægurs á því gengi sem gildir þann daginn.
Um síðustu áramót var 11,4% af eign Sjóðs 9, Peningamarkaðssjóðs Glitnis, skuldabréf útgefin af FL Group (nú Stoðir).
Skyldi gengi þessa sjóðs hrynja á morgun ?
Ef svo, þá er gott að hafa í huga að svona kynnir Glitnir sjóðinn sinn fyrir öllum almennum fjárfestum:
"Sjóðurinn hentar öllum fjárfestum sem vilja ávaxta fé í skamman tíma. Mjög lágur meðaltími skuldabréfaeignar sjóðsins gerir það að verkum að ólíklegt er að gengi hans lækki verulega sökum vaxtahækkunar. Sjóðurinn er því kjörinn til að ávaxta fé í nokkrar vikur. Sjóðurinn hentar einnig sem hluti af stærra verðbréfasafni til lengri tíma litið enda er ávöxtun á innlendum peningamarkaði frekar há. Sjóðurinn leitast við að halda skuldaraáhættu og vaxtaáhættu í lágmarki, sem gæti komið lítillega niður á ávöxtun en á móti er eignasafnið traustara."
25.9.2008 | 15:08
Valdi milljarðamæringur
Ef rétt er að kopparnir séu milljón talsins (og ég hef enga ástæðu til að ætla annað...Valdi er annálaður heiðursmaður) þá er Valdi einn af auðugustu mönnum Íslands.
Ef hver koppur er metinn á þúsundkall þá situr hann á einum milljarði.....í hjólkoppum.
Hann er heldur ekki í annarri stöðu með eignir sínar en aðrir auðmenn í dag....þær eru illseljanlegar. Ég hugsa að ég myndi frekar vilja eiga milljón hjólkoppa en t.d. hlutabréf í Eimskip.
Til hamingju með þetta Valdi...og afmælið !!
![]() |
Koppabransinn riðar til falls |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.9.2008 | 12:45
Tittlingaskítur
Orkuveita Reykjavíkur er við það að hækka hitaveitutaxtann sinn um tæp 10%.
Í viðtali í hádegisfréttum RÚV sagði Eiríkur Hjálmarsson, málpípa OR, að ,,hann vonaði að þessi 300 króna hækkun á mánuði á meðalíbúð setji ekki allt á annan endann."
Það mátti skilja hann sem svo að þetta væri svo mikill tittlingaskítur að það tæki varla að tala um þetta.
Núna hrúgast inn hækkanir. Hver aðilinn á fætur öðrum hækkar sitt um smá og hugsar....,,.það munar engum um þetta smáræði". Í hugum þessara aðila er margt smátt lítið eitt.
Almenningur finnur hinsvegar fyrir því í buddum sínum að margt smátt gerir eitt stórt og bara spurninginn hvenær stráið sem braut bakið bætist við.
25.9.2008 | 09:32
Frjáls einsog fuglinn er...
...frjáls svo ég skemmti mér.
Rakst á þessa frétt hérna.
Fjármálasnillingarnir hjá FL Group fljúga ss. frítt, sumir allavega, hjá flugfélaginu sem þeir ristu upp og slægðu.
Annars virðist þessi frétt hafa átt sér eitthvað lengri sögu, einsog lesa má á bloggi Guðmundar Magnússonar. Spurning hvort Vísir þurfi ekki að skrifa frétt um fréttina, tilurð hennar, dauða og endurfæðingu.
En allaveganna.......spurningin sem vaknar hjá mér er.....skildu skattayfirvöld vita af þessu ?
24.9.2008 | 12:08
Himnesk hefnd
Vil vekja athygli á hugmynd Halls Magnússonar sem hann lýsir á bloggi sínu hérna.
Í stuttu máli þá vill hann rýmka heimildir Íbúðalánasjóðs þannig að íbúðareigendur sem hafa fjármagnað íbúðakaup með erlendum lánum, að hluta eða öllu leiti, geti endurfjármagnað þau í gegnum sjóðinn þegar kemur að endurskoðun vaxta á næsta ári.
Svo ég klappi sjálfum mér aðeins á bakið þá flaug mér í hug sama hugmynd þegar ég heyrði um heimildirÍbúðalánasjóðs til að lána bönkum gegn veði í íbúðalánasafni bankanna. Mér fannst það þá soldið skrítið að hið opinbera var með þessu að rétta bönkunum hjálparhönd en skilja viðskiptavini þeirra eftir í súpunni, fasta í lánum með gengisskrúfuna í botni og fallöxina komna á loft með hótun um 50% hækkun vaxta á næsta ári.
Að vissu leiti væri þetta líka ,,divine retribution". Þegar bankarnir komu inná íbúðalánamarkaðinn af fullum þunga á árunum 2003 og 4 var fjárstreymið í hina áttina, þ.e. fólk fékk þá lánað í bönkum og greiddi upp lán hjá Íbúðalánasjóði sem þá voru með hærri vöxtum. Margir töldu þá að þetta væri vísvitandi tilraun bankanna til þess að bola Íbúðalánasjóð útaf markaðnum.
Þetta olli síðan miklum vandræðum hjá sjóðnum. Hann fjármagnar sig með skuldabréfaútgáfu en í þeim skuldabréfum voru engin uppgreiðsluákvæði. Hann gat því ekki tekið þessa peninga, hundruð milljarða ef ég man rétt, og greitt upp lán með þeim. Allt leit því út fyrir að sjóðurinn sæti uppi með verklaust fjármagn og sumir voru farnir að tala um gjaldþrot sjóðsins því á sama tíma tikkuðu skuldir hans. Hann brá síðan á það ráð að lána þessa peninga til annarra fjármálastofnana, sérstaklega minni sparisjóða, sem ekki áttu annan betri fjármögnunaraðila. Þetta var samt allt á gráu svæði því skv. lögum var þetta víst ekki eitt af hlutverkum sjóðsins.
Á þeim tíma.
En nú er lag. Það má snúa þessari sögu við. Heimila ÍLS að lána einstaklingum til uppgreiðslu á íbúðalánum bankanna. Í það minnsta þá færði það skuldurum einhver vopn í hendur í samningum við bankastofnanir. Eitthvert val...verðtrygging + 4-5% vextir eða gengistrygging + 6% vextir.
Það er alls ekkert víst að það sé hagkvæmt að fara þessa leið fyrir skuldarana. Það fer eftir genginu þegar líða fer á næsta ár og hvaða kjör bjóðast þá.
En a.m.k. þá væri um eitthvað að velja annað en að láta vaxtahækkunina ganga yfir sig þegjandi og hljóðalaust.
22.9.2008 | 20:02
No humans involved
Var búinn að bíða dáldið spenntur eftir Kompás þætti kvöldsins.
Hafði búist við nokkuð góðri sögu, með hetjum og skúrkum, baráttu hins góða við hið illa þar sem réttlætið sigrar að lokum.
Í staðinn blasti við það sem ég hef séð að er kallað NHI í amerískum lögguþáttum, þ.e. ,,No Humans Involved". Meira að segja löggan var hvorki né.
Innslagið um kræklingarækt var eiginlega skemmtilegra....
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2008 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2008 | 13:02
Að gera eitt en segja annað
Egill Helgason gerir skipulagsmál að umtalsefni einu sinni enn í pistli sínum......hérna.
Hann bendir á að skipulagsyfirvöld í Reykjavík framfylgja ekki eigin stefnu um þéttingu byggðar og minnkandi bílaumferð.
Þetta er alveg rétt hjá Agli...skipulagsyfirvöld framfylgja ekki þessari stefnu. Sem betur fer segi ég.
Ástæðan er einfaldlega sú að Reykvíkingar hafa hafnað þessari stefnu. Aftur og aftur. Bæði með fótunum, í kosningum og í skoðanakönnunum.
Reykvíkingar vilja ekki búa þétt. Þeir vilja búa í einbýlishúsum, í úthverfum, og þeir vilja eiga einkabíl með góðu aðgengi að öðrum borgarhlutum. Þeir vilja því ekki minnkun umferðar, þeir vilja betri umferðarmannvirki.
Þessvegna flykkjast þeir í úthverfin. Þeir sem eru á öndverðri skoðun við mig hafa bent á að íbúðarverð hækki hraðar í 101 en í öðrum hverfum. Þetta vilja þeir meina að bendi til þess að stærri hluti fólks vilji búa þar.
Ég svara því hinsvegar til að ákveðið hlutfall fólks vill auðvitað búa þarna. Reykvíkingum er að fjölga og stöðugt hlutfall af stækkandi hóp þýðir aukin eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á svæði þar sem framboðið er að mestu það sama ár frá ári.
Í úthverfunum hinsvegar eykst framboðið eftir því sem ný hverfi eru skipulögð. Því hækkar verðið ekki eins skart þar einsog í hverfum þar sem framboðið er stöðugt.
Reykvíkingar vilja útsýni út um gluggana sína, sól í görðunum sínum og gott aðgengi út úr borginni þangað sem þeir verja tómstundum sínum.
Reykvíkingar vilja borgina sína lága, dreifða, græna og sólríka. Með opnum svæðum og góðum samgöngumannvirkjum.
Stórborgarblæti þröngs hóps úr 101 á ekki við 90% af Reykvíkingum.
Þeir sem bera í brjósti draum um að breyta Reykjavík í skuggasund New York eða öngstræti London...tja...geta bara flutt þangað ?
14.9.2008 | 20:02
Landsbyggðarfjölskyldu í fóstur
Í fréttum nú áðan var lýst áhuga sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum á þvi réttlætismáli að tvær skattprósentur væru í landinu. Ein á landsbyggðinni, önnur, og hærri, á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta væri gert til þess að sporna við fólksflótta af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.
Þetta eru ekki nýjar hugmyndir. Þingmaður Vinstri Grænna, landsbyggðarmaðurinn Jón Bjarnason, hefur oft lýst þessari skoðun sinni.
Ég á reyndar erfitt með að skilja af hverju þetta, frekar en allt annað sem reynt er til þess að halda landsbyggðarfólki heima hjá sér, ætti að virka.
Ég er því með endurbætta útfærslu af þessari hugmynd.
Í stað þess að beita þessari valdbeitingarheimild sem skattheimta er, af hverju ekki að leita í smiðju hjálpar- og umhverfissamtaka og leyfa höfuðborgarbúum að taka landsbyggðarfjölskyldu í fóstur ? Gegn mánaðarlegri þóknun, t.d. 20-30.000 krónum, sem rennur beint til ákveðinnar fjölskyldu, fáum við að fylgjast með hvernig henni gengur. Myndir af nýja bílnum, póstkort úr sumarfríinu, einkunnaspjöld barnanna, fyrir og eftir myndir af húsinu osfrv.
Ég myndi t.d. taka áðurnefndan Jón Bjarnason í fóstur, hann er greinilega á flæðiskeri staddur.
12.9.2008 | 19:44
Kynferðisbrot og bloggbann
Ekki vissi ég að Mogginn kemur í veg fyrir blogg um sumar fréttir, t.d. þessa.
Gott og vel. Líklega er þetta nauðsynlegt til þess að umræðan fari ekki útí vitleysu eða til þess að vernda saklausa.
En það sem ég vildi segja er að um þennan dóm var fjallað í fréttum á báðum sjónvarpsstöðvunum.
Í fréttum Stöðvar 2 var atvikalýsingin, sem sjá má einnig í frétt Moggans, lesin upp nánast orðrétt. Er þetta nauðsynlegt ? Dóttir mín, átta ára, var að skottast í kringum sjónvarpið þegar fréttin var flutt og fannst ástæða til þess að spyrja mömmu sína ,,hvað væri að fróa sér".
Á RÚV var umfjöllunin með allt öðrum hætti. Þar var fjallað um alvarleika brotsins án þess að fara útí ónauðsynleg smáatriði.
Þeir sem semja fréttatextann hverju sinni mættu vel hafa í huga að oft er í holti heyrandi nær.
12.9.2008 | 13:20
Saman að jafna ?
Þetta finnst mér vera ósmekklegt.
11.9.2008 Nokkrir ofurbjartsýnir íslenskir auðmenn (og aðrir sem treystu á snilli þeirra) innleysa tap af flugrekstrarævintýri uppá nokkra tugi milljarða.
11.9.2001 3000 óbreyttir borgarar voru myrtir og morðvopnin voru flugvélar.
Getur einhver útskýrt hvernig það er ,,táknrænt" að þetta ber uppá sama dag ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Magnús Birgisson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar