4.1.2009 | 21:05
Frábært tækifæri til þess að standa sig illa
Mér finnst einsýnt að það verði kosið á þessu ári. Og þó ég fagni því þá verð ég að viðurkenna að ég hálft í hvoru kvíði því líka.
Ég hef fylgt Sjálfstæðismönnum að málum hingað til. Mér finnst hinsvegar Sjálfstæðisflokkurinn vera í hálfgerðri afneitun þessar vikurnar. Eiginlegar allar stofnanir sem hafa brugðist á síðustu misserum hafa verið undir þeirra stjórn og ef Sjálfstæðisflokkurinn stígur ekki fram og gerir hreint fyrir sínum dyrum þá verður mjög erfitt að kjósa þá í ár.
Flokkurinn þarf núna að stíga fram og setja reglur um fjármál stjórnmálaflokka. Setja sér siðareglur um tengsl þingmanna við atvinnulífið, þ.m.t. eignatengsl. Upplýsa um hvernig þeir ætla að standa að ráðningum í valdamikil embætti. Svara kalli almennings um breytingar í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Koma fram með frumvörp sem tekur á hringamyndun og eignatengslum í atvinnulífinu. Og síðast en ekki síst taka til í sínum röðum og senda út á gaddinn þá einstaklinga sem þrálátur spillingarorðrómur hefur umlykið um langan tíma svo og þá sem hafa núna upplifað hugmyndafræðilegt gjaldþrot.
En ef ekki Sjálfstæðisflokkinn hvað þá? Dilemman sem ég á í þar er í raun ekki hvaða flokk ég mundi kjósa heldur það að það er sama hvaða flokkar mynda næstu ríkisstjórn þá mun sú ríkisstjórn fá frábært tækifæri til þess að standa sig illa.
Það er sama á hvaða mælikvarða er horft þá eru efnahagshorfurnar slæmar. Ef næstu ríkisstjórn tekst ekki að laga stöðuna þá mun hún alltaf hafa einhverja bestu afsökun sem nokkurri ríkisstjórn hefur verið gefið....bankahrunið.
Næsta ríkisstjórn mun því geta lifað við mikið atvinnuleysi, háa verðbólgu, lækkandi kaupmátt, hallarekstur og skuldasöfnun ríkissjóðs svo og lágt gengi krónunnar og ávallt vísað til afleiðinga bankahrunsins.
Næsta ríkisstjórn getur stöðvað frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar, stóraukið umsvif ríkisins, hvort sem er í hefðbundnu hlutverki eða í atvinnulífinu, tekið upp hátekjuskatt og eignaskatt, hækkað erfðafjárskatt og virðisaukaskatt og drepið atvinnulífið í margvíslegan dróma og alltaf haft fyrir því frábæra afsökun. Bankahrunið og nauðsynlegar aðgerðir til þess að kljást við afleiðingar þess.
Þetta kalla ég að næsta ríkisstjórn mun hafa frábæra afsökun til þess að standa sig illa.
Ég er því eiginlega að komast á þá skoðun að líklega kjósa ég bara Sjálfstæðisflokkinn aftur. Hann hefur nefnilega enga afsökun. Hann hefur staðið sig illa og getur ekki ætlast til þess að hann fái bara að gera það áfram.
En fyrst verður flokkurinn að sýna einhvern lit og viðurkenna að það er verk að vinna í innanbúðarmálunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Magnús Birgisson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
300% sammála, nema hvað ég er að hugsa um að skila auðu því það sendir meiri skilaboð en margt annað....
Snorri Magnússon, 4.1.2009 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.