Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
19.11.2008 | 19:31
Winona eða Ísland
Aumingja Winona. Það er eiginlega alveg sama hvað hún hefur afrekað á ferli sínum eða hvað hún mun afreka í framtíðinni, alltaf munu fréttir af henni enda með sama hætti eins og þessi. Hún var handtekinn fyrir búðarhnupl árið 2001.
Ég óttast það soldið að það sama eigi við um Ísland. Allar fréttir af Íslandi í framtíðinni munu enda á þeirri setningu að Ísland hafi ,,de facto" orðið gjaldþrota í október árið 2008.
![]() |
Kvikmyndastjarna veiktist í háloftunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2008 | 10:58
Gerum það sem er siðferðilega rétt
Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að semja um þetta og að við eigum að standa bak við skuldbindingar innistæðusjóðsins.
Mér finnst það ekki skipta neinu máli hvað er lögfræðilega rétt.....við eigum að gera það sem er siðferðilega rétt.
Samkomulagið gæti verið á þessum nótum:
- Íslenska ríkið gengst í bakábyrgð fyrir skuldbindingum innistæðusjóðsins íslenska
- Ríkisstjórn í hverju landi fyrir sig láni innistæðusjóðnum svo hægt sé að greiða innistæðueigendum eign sína
- Lánin verða til a.m.k. þriggja ára
- Ákvæði neyðarlaganna um forgang innistæðna í þrotabúið verði viðurkennt af erlendu ríkisstjórnunum
- EB viðurkenni galla á löggjöf sinni og lagar það svo sambærilegt gerist aldrei aftur
Með þessari aðferð fáum við þriggja ára andrými til þess að koma eignum bankanna í verð. Vonandi er það nóg. Ef ekki....tough shit....við getum allavega borið höfuðið hátt og frestum hátæknisjúkrahúsinu um svona tíu ár eða þangað til olían er farin að flæða fyrir austan.
![]() |
Samningar um Icesave eina leiðin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.11.2008 | 14:35
Ég sendi bréf til 2 ráðherra
Sjá eftirfarandi....
Hr. Fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen
og
Fr. Félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir
Efni: Útgreiðsla séreignarlífeyrissparnaðar til fólks í greiðsluerfiðleikum
Það er fyrirséð að með auknu atvinnuleysi, hækkun verðlags og gengisfalli krónunnar, að fjöldi fólks mun lenda í erfiðleikum með afborganir húsnæðisskulda á næstu mánuðum. Því vil ég koma þeirri hugmynd á framfæri við ykkur að nú kunni að vera skynsamlegt að auka tímabundið möguleika fólks að draga á lífeyrissparnað þann sem geymdur er í séreignarsjóðum.
Það er mikið tjón að missa húsnæði sitt og það eigið fé sem í því kann að felast vegna tímabundinna greiðsluerfiðleika sökum atvinnuleysis. Þegar húsnæði er selt nauðungarsölu fæst ekki fyrir það nema hluti raunvirðis þess og tapið kann að vera margfalt meira en sem nemur þeim afborgunum sem gjaldfallnar voru.
Margir sem frammi fyrir þessu kunna að standa á næstunni eiga allnokkrar fjárhæðir bundnar í séreignarsparnaði. Það er að mínu mati skynsamleg ráðstöfun á hluta af þessu fé að gera fólki kleift að standa í skilum frekar en að lenda í vanskilum og jafnvel gjaldþroti. Séreignarsparnaðinn er hægt að vinna upp aftur þegar betur árar en gjaldþrot getur haft áhrif sem vara í mörg ár.
Í dag heimilar 11. grein laga nr. 129/1997 fólki ekki að hefja töku lífeyris úr séreignarsjóðum fyrr en við 60 ára aldur eða fyrr ef viðkomandi er öryrki. Ég er þeirrar skoðunar að við fyrrnefnda 11. grein eigi að bæta málsgrein sem tiltekur undir hvaða skilyrðum hægt er að fá útborgað úr séreignarsjóðnum þegar um tímabundin greiðsluvandræði og/eða atvinnuleysi er að ræða.
Þessi tilslökun er líka vel til þess að fallin að virkja lífeyrissjóðina sem sveiflujöfnunartæki einsog verið hefur í umræðunni.
Ég vil ennfremur benda á að greiðslur úr séreignarsjóðum eru staðgreiðsluskyldar og þetta myndi því að einhverju marki milda það tekjutap sem ríkið og sveitarfélög standa nú frammi fyrir sökum
minnkandi launatekna almennings í landinu.
Það hlítur í öllu falli að vera best að hjálpa fólki til þess að hjálpa sér sjálft með þeim fjármunum sem það hefur sjálft safnað.
Bestu kveðjur með von um skjót og jákvæði viðbrögð,
Magnús Birgisson
11.11.2008 | 10:50
Heit kartafla
Þessi umsókn okkar til IMF virðist vera að snúast upp í einhvern farsa.
Fréttirnar sem hingað berast eru allavega ákaflega óljósar og misvísandi.
- Á einum stað er okkur sagt að IMF taki ekki fyrir umsóknina fyrr en Íslendingar séu búnir að tryggja sér frekari lánsfjármagn frá öðrum þjóðum.
- Á öðrum stað er sagt að við fáum ekki lán frá öðrum þjóðum fyrr en búið er að afgreiða lánið frá IMF.
- Á þriðja staðnum er sagt að formleg umsókn sé ekki komin til sjóðsins.
- Á fjórða staðnum er sagt Hollendingar og Bretar standi í vegi fyrir lánsafgreiðslunni.
- Á fimmta staðnum er sagt að Bretar standi heilshugar að baki lánsumsókn Íslendinga (en.....)
- Á sjötta staðnum er sagt að björgunarpakkinn komi frá Norðulöndum.
- Á sjöunda staðnum er sagt að aðeins Norðmenn og Svíar (með semingi þó) sé búnir að samþykkja lánsloforð.
Þeir einu sem virðast standa í fæturnar í þessu máli eru Færeyingar og Pólverjar.
Er nokkuð skrítið að maður sé farinn að halda að Ísland sé einhverskonar heit kartafla í samskiptum þjóða þessa dagana ?
![]() |
Finnar vilja meiri upplýsingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.11.2008 | 00:01
Alveg ótrúlegt..
...það er eiginlega ekkert hægt að segja...þetta er svo ótrúlegt.
Ef einhver velktist í vafa um að hið pólitíska vald á Íslandi og flokkakerfið virkaði ekki lengur þá þurfum við ekkert að ræða það meira. Það virðist vera samansett af einstaklingum sem ekki geta hugsað heila hugsun. Á þessum tímum finnst þeim skynsamlegast að nýta tíma sinn í að stinga innanflokksmenn í bakið......nafnlaust....og nýta til þess aðstoðamenn á launum frá almenningi.
Trúir því einhver að Bjarni hafi síðan hætti við í símtali skömmu síðar ?
En svo er hitt að nú vitum við hversvegna alþingismenn þurfa aðstoðarmenn. Þetta eru ss. pólitískir snatthundar.
Aðstoðarmennirnir komu inn með breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, sem samþykkt var í vor.
Í greinargerð með frumvarpinu stendur að tilgangurinn með þessari heimild til ráðningar aðstoðarmanna er ,,að bæta starfsaðstöðu þingmanna". Er þátttaka í innanflokksátökum hluti af starfi þingmanna ?...þ.e. með þeim hætti að það sé réttlætanlegt að almenningur taki þátt í kostnaði við það ?
Í komandi niðurskurði á fjárlögum hlýtir þetta að vera eitthvað sem er horft til.
![]() |
Áframsendi gagnrýni á Valgerði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.11.2008 | 12:32
Dæmigert
Þetta er alveg dæmigert fyrir hið opinbera kerfi. Engu máli virðist skipta að fólk hefur kannski fjármagnað lóðina með dýrum lánum en fær bara verðtryggt til baka þannig að hver mánuður getur verið ákaflega dýr í vaxtakostnaði.
Ég hef reynslu af svipuðu.
Ég fékk úthlutað lóð í Reykjavík árið 2000. Ég hóf strax handa og lét teikna. Arkitektateikningar, verkfræðiteikningar og rafmangsteikningar voru loks samþykktar eftir mikið japl, jaml og fuður. Fyrsta skóflustunga var tekin í maí árið 2001.
Þegar grunnur er tekinn þá þarf að taka hann út. Það kom í ljós sprunga í berginu sem náði þvert í gegnum lóðina. Nokkuð stór, u.þ.b. hálfur meter á breidd.
Það upphófst mikil rekistefna og leit út fyrir á tímabili að mér yrði bannað að byggja á lóðinni. Loks fékkst sú niðurstaða að mér var heimilt að halda áfram en ég þurfti að leggja útí all mikinn kostnað.
Yfir sprunguna var steyptur platti, og veggur þar ofan á styrktur með járni og meiri steypu. Þetta kostaði nýjar verkfræðiteikningar auk efniskostnað og vinnulauna.
Ef mér hinsvegar hefði verið bannað að byggja hefði ég aðeins fengið lóðaverðið til baka. Ekki kostnað við að taka grunninn, teikningakostnað eða nokkuð af því sem sem ég hafði lagt út sem auðveldlega var álíka mikið og lóðakostnaðurinn einsog hann var þá.
Og það þrátt fyrir það að varan sem ég var að kaupa, þ.e. lóðin, var gölluð.
Það er óþarfi að taka fram að þegar jarðskjállfarnir urðu síðasta vor flýtti ég mér heim og skoðaði allt húsið mjög nákvæmlega. Engar sprungur í húsinu enda ákaflega sterkbyggt
![]() |
Fá ekki að skila lóðum strax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.11.2008 | 21:30
Nú verðum við rík....
...aftur.
CNN setur Ísland efst á lista yfir áhugaverða kosti fyrir ferðalanga, nú þegar krónan er orðin verðlaus.
Sjá hér.
6.11.2008 | 22:59
Ekki það sama.....gengi eða gengi
Skuldir Orkuveitu Reykjavíkur hafa hækkað um 40 milljarða á skömmum tíma vegna lækkunar krónunnar.
Hérna kemur fram að skuldir Orkuveitu Suðurnesja hafa hækkað um 14 milljarða af sömu ástæðu, farið úr 12 í 26 milljarða. Það kemur einnig fram í fréttinni að allar skuldir OS eru í erlendum gjaldmiðlum.
Það hefur borið soldið á því í umræðunni að þeir sem hafa tekið lán í erlendum gjaldmiðlum séu bara asnar. Davíð Oddsson, sá mikli hagfræðisnillingur, orðaði það þannig að það ætti enginn með tekjur sínar í krónum að taka þá áhættu að vera með skuldir sínar í erlendum gjaldmiðlum.
Ég er með skuldir í erlendum gjaldmiðlum. Um áramótin síðustu voru þær um 10 milljónir. Í dag eru þær um 16. Ef einhver segir að þar með sé ég bara fyrirhyggjulaus asni þá ætla ég ekki reyna að malda í móinn.
En ég ætla að benda á eina staðreynd.
Á Íslandi hafa alltaf verið 3 gjaldmiðlar:
- Óverðtryggð króna
- Verðtryggð króna
- Karfa erlendra gjaldmiðla
Allir íslendingar eru með laun sín í gjaldmiðli 1. Eina leiðin til þess að kaupa sér þak yfir höfuðið er að taka lán í gjaldmiðli 2 eða 3. Það er m.ö.o. ómögulegt að fjármagna íbúðakaup í sama gjaldmiðli og maður fær útborgað í nema maður treystir sér til að greiða þau upp á skemmri tíma en 5 árum.
Og halda menn virkilega að menn séu að taka meiri áhættu með skuldir í gjaldmiðli 3 en gjaldmiðli 2 ? Þeir sem því halda fram ættu að skoða eftirfarandi mynd.
Myndin segir eiginlega allt sem segja þarf. Ég setti báðar vísitölurnar á 100 í október 1998 og þær ná fram til október 2008.
Gengið hefur sveiflast....farið upp....farið niður...en nokkurnveginn haldist það sama með meðaltalið u.þ.b. 110 (jafngildir gengisvísitölu = u.þ.b. 130). Þangað til í vor. Þá verður allt vitlaust. En sá sem hóf að greiða af 40 ára gengisláninu sínu 1998 hefur séð höfuðstólinn lækka...og lækka. Þangað til í vor.
Neysluverðsvísitalan hefur hinsvegar þrammað uppávið. Hægt og rólega...en alltaf upp. Sá sem hóf að greiða af verðtryggða láninu sínu 1998 hefur væntanlega ekki séð neina lækkun á sínum höfuðstól.
Það er ekki fyrr en núna í haust sem gengið fer yfir neysluverðsvísitöluna. En nota bene...gengistryggða lánið hefur lækkað svo prósentuhækkunin sem varð í haust er af lægri höfuðstól. Myndin sýnir það ekki.
Hvað skeður á næstunni ? Gengisvísitalan mun ná hæstu hæðum núna fyrir áramót...ég giska á kannski ca. 250. það jafngildir u.þ.b. 200 á grafinu. Síðan fer hún að lækka hratt aftur og ég giska á ca. 170 (150 á grafi) í vor og halda síðan áfram að lækka í rólegheitunum. Lánskjaravísitalan hinsvegar mun bara hækka og hækka. Seinnipartinn á næsta ári skríður hún aftur yfir gengisvísitöluna og mun síðan bara hækka....og hækka.....og hækka.
Þetta útskýrir líka hversvegna það er skynsamlegt að frysta afborganir af erlendu lánunum núna. Það sparar pening í raun og veru því greiðslur hefjast ekki aftur fyrr en gengið hefur styrkst aftur og verða því lægri. Jafnvel þó vextir á frystingartímanum bíða þá í einni greiðslu þá reiknast þeir með lægra genginu. Það er skynsamlegt að leggja til hliðar fyrir þeim ef kostur er.
Frysting á verðtryggðu lánunum skiptir hinsvegar engu máli. Þau hækka bara og hækka. Það er betra að greiða sem mest sem fyrst til þess að sleppa við verðbólguskotið sem kemur núna. Jafnvel greiða upp verðtryggð lán.
Ég hinsvegar er áhættufælinn viðskiptafræðingur. Ég er með ca. helming í verðtryggðu og hinn helminginn í gengistryggðu. Alltaf að dreifa áhættunni.
Frá síðustu mánaðamótum er ég líka atvinnulaus viðskiptafræðingur....svona meira og minna...í fyrsta skipti á ævinni.
![]() |
Skuldir OR vaxa um 40 milljarða á stuttum tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.11.2008 | 22:40
Meira grín gert að Íslendingum
4.11.2008 | 15:30
Frábær árangur
Árangur þeirra Björgólfsfeðga verður að teljast ekkert minna en frábær.
Þrjú af elstu hlutafélögum landsins eru komin að fótum fram undir tryggri handleiðslu þeirra.
Landsbankinn (stofnaður 1886), Morgunblaðið (stofnað 1913) og Eimskip (stofnað 1914).
Spurning um að kjósa Björgólf Guðmundsson sem forseta. Lýðveldið myndi fljótlega lýða undir lok og þá væri kannski fyrst grundvöllur fyrir því að tala um ,,Nýja Ísland".
![]() |
Samson synjað um framlengingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Magnús Birgisson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar